Sjö fluttir með þyrlum á sjúkrahús

Gríðarlegur fjöldi sjúkraflutnignabíla var sendur á vettvang, bæði frá Brunavörnum …
Gríðarlegur fjöldi sjúkraflutnignabíla var sendur á vettvang, bæði frá Brunavörnum Árnessýslu og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Sjö hafa verið fluttir á Fossvogsspítala með þyrlum Landhelgisgæslunnar eftir að rúta með um 30 farþegum valt á Rangár­valla­vegi í dag.

Rútan valt á Rangár­valla­vegi nálægt Stokkalæk skömmu ­fyrir kl. 17 í dag. Um 20-30 manns voru í rútunni. 

Björgunarstarf stendur enn yfir og unnið er að því að flytja slasaða af vettvangi. Nákvæmur fjöldi slasaðra liggur ekki fyrir. 

Frá slysstaðnum við bæinn Stokkalæk.
Frá slysstaðnum við bæinn Stokkalæk. Ljósmynd/Aðsend

Samhæfingarstöð virkjuð

Aðstæður voru með þeim hætti að hópslysaáætlun var virkjuð þegar í stað, sem og samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð.

Tvær þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru ræst­ar út og eru mættar á vettvang, seg­ir Ásgeir Erlends­son, upp­lýs­inga­full­trúi Land­helg­is­gæsl­unn­ar, í sam­tali við mbl.is.

Fyrri þyrlan flutti þrjá á Fossvogsspítala og hin flutti fjóra. Þyrla verður ekki send aftur á vettvang, að sögn Ásgeirs.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig sent þrjá sjúkraflutningabíla til að aðstoða með sjúkraflutninga.

Heildarfjöldi slasaðra óljós

Ekki liggur fyrir með hvað hætti slysið varð en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn þess. Slysið varð nálægt Stokkalæk og hefur lögreglan lokað fyrir stóran hluta vegarins, segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Yfirlögregluþjónninn vildi ekki svara því hvort einhver væri alvarlega slasaður eða úrskurðaður látinn á vettvangi.

Hjálp­arsím­inn 1717 veit­ir sál­ræn­an stuðning til þeirra sem þess óska. Opnað hef­ur verið söfn­un­ar­svæði aðstand­enda í hús­næði Árnes­deild­ar RKÍ að Eyr­ar­vegi 23 Sel­fossi einnig.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert