Ísraelskur gísl á lífi í nýbirtu myndskeiði

Ísraelska lögreglan handtekur mann á meðan á mótmælum ættingja og …
Ísraelska lögreglan handtekur mann á meðan á mótmælum ættingja og stuðningsmanna ísraelskra gísla stóð í borginni Tel Aviv fyrr í vikunni. AFP/Jack Guez

Palestínsku vígasamtökin Heilagt stríð hafa birt myndskeið sem sýnir ísraelskan gísl á lífi og í haldi á Gasasvæðinu.

Ísraelskir fjölmiðlar segja gíslinn heita Sasha Trupanov, 28 ára. Myndskeiðið er 30 sekúndna langt og þar sést Trupanov tala hebresku. Óljóst er hvenær það var tekið.

Trupanov, sem er með rússneskan og ísraelskan ríkisborgararétt, var rænt 7. október frá samyrkjubúinu Nir Oz ásamt móður sinni, ömmu og kærustu.

Konurnar þrjár voru leystar úr haldi á meðan á vopnahléi stóð á milli Hamas-samtakanna og Ísrael í lok nóvember, sem leiddi til þess að 105 gíslum var sleppt.

Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu.
Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu. AFP

Stríðið á Gasa hófst í kjölfar árásar Hamas á suðurhluta Ísraels 7. október þegar yfir 1.170 manns voru drepnir, flestir almennir borgarar, samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar sem byggja á opinberum ísraelskum tölum.

Vígamenn tóku 252 gísla og er 121 þeirra enn á Gasasvæðinu, þar á meðal 37 sem eru sagðir látnir.

Í hefndaraðgerð Ísraela hafa að minnsta kosti 36.096 manns á Gasa verið drepnir, flestir almennir borgarar, að sögn heilbrigðisráðuneytisins á svæðinu sem er rekið af Hamas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert