Enginn haft samband við borgaraþjónustuna

Enginn Íslendingur í Taívan hefur verið í sambandi við borgaraþjónustuna …
Enginn Íslendingur í Taívan hefur verið í sambandi við borgaraþjónustuna í kjölfar skjálftans. AFP/Slökkviliðið í Hualien

Til þessa hefur engin íslenskur ríkisborgari í Taívan haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna stærðarinnar skjálfta sem reið yfir eyjuna um miðnætti á íslenskum tíma.

Þetta staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í skriflegu svari til mbl.is.

Ráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um það hvar Íslendingar eru búsettir eða staddir hverju sinni en mun ráðuneytið fylgjast grannt með stöðu mála.

Níu látnir og yfir 800 slasaðir

Í það minnsta níu eru látnir og yfir 800 slasaðir eftir skjálftann sem var 7,4 að stærð. Tugir bygginga eru ónýtar. Mbl.is ræddi fyrr í dag við Bryn­hild­i Guðmunds­dótt­ir og eiginmann henn­ar, Ivica Gregoric, en þau eru stödd í Taipei, höfuðborg Taívans. Voru þau á fjórtándu hæð á hóteli þegar skjálftinn stóri reið yfir.

„Maður verður voðal­ega van­mátt­ug­ur og lít­ill en þú veist að það er ekk­ert sem þú get­ur gert. Sér­stak­lega þegar þú ert á fjór­tándu hæð því þú ert ekki að fara hlaupa niður, þú ert ekki að fara und­ir neitt - þá eru bara fullt af hæðum að fara koma ofan á þig. Þú get­ur ekk­ert gert,“ sagði Bryn­hild­ur í samtali við mbl.is.

AFP fréttaveitan greinir frá því að þrír einstaklingar í gönguferð í nágrenni við Hualien-borg hafi kramist til bana vegna grjóts sem fór af stað við jarðskjálftann. Þá fórust ökumenn vöruflutningabíls og fólksbíls þegar ökutæki þeirra urðu fyrir grjóthruni.

Tugir bygginga eru ónýtar eftir skjálftann.
Tugir bygginga eru ónýtar eftir skjálftann. AFP/MNA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert