Til þessa hefur engin íslenskur ríkisborgari í Taívan haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna stærðarinnar skjálfta sem reið yfir eyjuna um miðnætti á íslenskum tíma.
Þetta staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í skriflegu svari til mbl.is.
Ráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um það hvar Íslendingar eru búsettir eða staddir hverju sinni en mun ráðuneytið fylgjast grannt með stöðu mála.
Í það minnsta níu eru látnir og yfir 800 slasaðir eftir skjálftann sem var 7,4 að stærð. Tugir bygginga eru ónýtar. Mbl.is ræddi fyrr í dag við Brynhildi Guðmundsdóttir og eiginmann hennar, Ivica Gregoric, en þau eru stödd í Taipei, höfuðborg Taívans. Voru þau á fjórtándu hæð á hóteli þegar skjálftinn stóri reið yfir.
„Maður verður voðalega vanmáttugur og lítill en þú veist að það er ekkert sem þú getur gert. Sérstaklega þegar þú ert á fjórtándu hæð því þú ert ekki að fara hlaupa niður, þú ert ekki að fara undir neitt - þá eru bara fullt af hæðum að fara koma ofan á þig. Þú getur ekkert gert,“ sagði Brynhildur í samtali við mbl.is.
AFP fréttaveitan greinir frá því að þrír einstaklingar í gönguferð í nágrenni við Hualien-borg hafi kramist til bana vegna grjóts sem fór af stað við jarðskjálftann. Þá fórust ökumenn vöruflutningabíls og fólksbíls þegar ökutæki þeirra urðu fyrir grjóthruni.