O.J. Simpson látinn

O.J. Simpson í réttarsal árið 2001.
O.J. Simpson í réttarsal árið 2001. AFP

Bandaríska ruðningsstjarnan O.J. Simpson, sem frægastur varð fyrir að vera grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni og vini hennar að bana árið 1994, er látinn 76 ára að aldri.

Réttarhöld yfir honum vöktu heimsathygli árið 1995, þar sem hann var að lokum fundinn saklaus að mati kviðdóms.

Fjölskylda hans greinir frá andlátinu og segir hann hafa látist í gær sökum krabbameins.

O.J. Simpson í réttarsal árið 1994.
O.J. Simpson í réttarsal árið 1994. AFP

Handtekinn árið 2007

Simpson var handtekinn í Las Vegas árið 2007 og ákærður fyrir vopnað rán, líkamsárás og mannrán eftir að hafa átt í útistöðum við tvo íþróttaminjagripasala.

Simpson kvaðst einungis hafa verið að reyna að ná aftur minnisgripum frá eigin íþróttaferli, sem hann kvað sölumennina hafa hrifsað frá honum.

Að þessu sinni mat kviðdómurinn hann sekan og hlaut hann 9-33 ára fangelsisdóm.

Loks var hann látinn laus í október árið 2017 og hélt sig að mestu utan sviðsljóssins, þó hann léti stundum í sér heyra á félagsmiðlum.

Saga hans var efni sjónvarpsþáttaraðarinnar „The People v. O. J. Simpson: American Crime Story“, sem vann til fjölda Emmy-verðlauna, þar á meðal fyrir bestu einstöku þáttaröðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert