„Fyrir ykkur var hann skrímsli“

Fórnarlamba árásarinnar minnst fyrir utan verslunarmiðstöðina.
Fórnarlamba árásarinnar minnst fyrir utan verslunarmiðstöðina. AFP/David Gray

Lögreglan í Ástralíu segir nú til rannsóknar hvers vegna Joeal Cauchi, karlmaður sem varð sex að bana í verslunarmiðstöð í Sydney á laugardag, hafi, að því er virðist, fyrst og fremst ætlað að ráðast á konur.

Maðurinn, sem var fertugur og að glíma við andleg veikindi, var skotinn til bana af lögreglukonu á vettvangi. Hann hafði þá gengið um verslunarmiðstöðina og ráðist á fólk með stórum hnífi.

Augljóst að hanni hafi ætlað að ráðast á konur

Fimm af sex fórnarlömbunum sem létust í árásinni voru konur. Tólf til viðbótar særðust, þar af flestar konur.

Karen Webb, lögreglustjóri í New South Wales, sagði ekki hægt að fullyrða hvað hefði gengið árásarmanninum til en svo virðist sem hann hafi einsett sér að ráðast á konur. Það sé augljóst.

„Myndskeiðin tala sínu máli, þetta er klárlega til skoðunar hjá okkur,“ sagði Webb.

Í ljósi þess að árásarmaðurinn sé nú látinn sé mikilvægt fyrir lögreglu að yfirheyra þá sem þekktu hann.

„Það er ekkert sem ég get sagt eða gert

„Fyrir ykkur var hann skrímsli, fyrir mér var hann afar veikur drengur,“ sagði Andrew Cauchi, faðir árásarmannsins.

Í viðtali við fjölmiðla kvaðst hann harma árásina og sagðist ekki vita hvað hefði fengið son sinn til að fremja þetta ódæðisverk.

„Þetta er svo hryllilegt, ég get ekki einu sinni útskýrt það,“ sagði Andrew Cauchi og bætti við að hann hefði gert allt sem í sínu valdi stæði til að hjálpa syni sínum.

„Fyrirgefið mér það er ekkert sem ég get sagt eða gert til að fá hina látnu til baka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert