Gullþjófur loks handtekinn í Kanada

Þota Air Canada.
Þota Air Canada. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Útlit er fyrir að yfirvöldum hafi loks tekist að upplýsa þjófnað á gámi fullum af gullstöngum og peningum á Pearson-alþjóðaflugvellinum í Toronto í Kanada fyrir ári síðan.

Yfirvöld í Kanada greindu frá þessu í dag en á morgun verður upplýst frekar um handtökurnar í málinu.

Verðmæti að andvirði 2 milljarða króna

Gullstangirnar og peningarnir eru taldir vera að verðmæti 15 milljónir dollara, sem jafngildir um tveimur milljörðum íslenskra króna. Gullstangirnar vógu rúmlega 400 kíló og þá voru tvær milljónir króna í reiðufé. Varningurinn hafði nýlega verið kominn til Toronto í flugi frá Zürich í Sviss áður en honum var stolið. Þjófnaðurinn er talinn vera einn sá stærsti í sögu Kanada.

Bandaríska öryggisfyrirtækið, Brink' International kærði síðar Air Canada vegna þjófnaðarins en samkvæmt skráningu fyrirtækisins á síðasta ári gekk þjófur burt með dýra farminn eftir að hafa framvísað fölsuðu skjali í vöruhúsi Air Canada þann 17. apríl í fyrra. Brink' International hélt því fram að flugfélagið hafi sýnt mikið kæruleysi með því að koma ekki í veg fyrir þjófnaðinn.

Í varnaryfirlýsingu 8. nóvember hafnaði Air Canada ásökunum í málsókn öryggisfyrirtækisins. Það sagðist uppfylla flutningasamninga sína og neitaði að hafa ekki sinnt skyldum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert