Handteknir vegna skotárásar í Ósló

Lögreglumenn á eftirlitsgöngu á Karls Jóhannsgötu í Ósló.
Lögreglumenn á eftirlitsgöngu á Karls Jóhannsgötu í Ósló. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fjögur ungmenni voru í dag handtekin og liggja formlega undir grun um tilraun til manndráps og samverknað til manndráps eftir að tæplega tvítugur maður særðist alvarlega í skotárás á Bryne í Ósló í gærkvöldi.

Að sögn Kjersti Haremo Myhre rannsóknarlögreglumanns gekkst fórnarlambið undir aðgerð og er nú úr lífshættu. Hinir handteknu sættu yfirheyrslum í dag og telur lögregla að um hafi verið að ræða persónulegt uppgjör fjórmenninganna og þess er misgert var við.

Að sögn Henrik Rådal, ákæruvaldsfulltrúa lögreglunnar í Ósló, er reiknað með að gæsluvarðhaldsúrskurðar verði krafist yfir hinum grunuðu á morgun en lögregla hvetur þá sem kunna að hafa vitneskju eða upplýsingar um hvað fórnarlambið hafði sér til saka unnið til að hafa samband við lögreglu.

Tveir af fjórum verjendum hinna grunuðu segja norska ríkisútvarpinu NRK að skjólstæðingar þeirra ýmist neiti sök eða kveðist ekki hafa hugmynd um hvað málið snýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert