Sat á þaki byggingarinnar þegar eldurinn kviknaði

Endurbætur á byggingunni stóðu yfir.
Endurbætur á byggingunni stóðu yfir. AFP/Lisoletta Sabroe

Kenneth Dühring, starfsnemi koparsmiðs hjá Toft Kobber, sat í makindum við vinnu á þaki sögufrægu byggingarinnar Børsen þegar hann heyrði eldvarnabjöllurnar hringja klukkan 7.36 í gærmorgun.

Ekki leið á löngu þar til byggingin stóð í ljósum logum og nú degi síðar er helmingur hennar brunninn til kaldra kola og turnspíra Børsen fallin.

Endurbætur á byggingunni stóðu yfir og átti þeim að ljúka á 400 ára afmæli hennar á næsta ári.

Danska ríkisútvarpið greinir frá.

Turnspíran í ljósum logum áður en hún féll til jarðar.
Turnspíran í ljósum logum áður en hún féll til jarðar. AFP/Ida Marie Odgaard

Brunavarnarkerfið hafði oft farið í gang

Þegar brunavarnakerfið fór í gang brást Dühring við með því að klifra af þakinu og á vinnupalla sem stóðu við hlið byggingarinnar. Örfáum mínútum síðar sá hann reyk. Hann stökk aftur á þakið og fór þá ekki milli mála hvað hafði gerst – byggingin logaði.

„Við hlupum saman fram og til baka skelfingu lostnir,“ sagði Dühring við danska ríkisútvarpið.

Að sögn Dühring fór brunavarnakerfið oft í gang meðan á framkvæmdum stóð, meðal annars vegna ryks sem þyrlaðist upp.

Iðnaðarmennirnir voru að klæða þakið þegar eldurinn kviknaði.
Iðnaðarmennirnir voru að klæða þakið þegar eldurinn kviknaði. AFP/Ida Marie Odgaard

Horfðu á vinnuna fuðra upp

Iðnaðarmennirnir komust þó heilu og höldnu af þakinu og niður á jörðu þar sem samstarfsfélagarnir fylgdust með eins og hálfs árs framkvæmdum fuðra upp.

Var vinnan við endurbæturnar nánast hálfnuð en sá hluti þaksins þar sem búið var að leggja koparplötur brann til fulls.

Dühring kveðst ekki hafa áttað sig almennilega á harmleiknum fyrr en hann kom heim til sín. 

Í morgun funduðu starfsmenn Toft Kobber þar sem áhersla var lögð á líðan starfsmanna. 

„Okkur líður öllum skringilega. Sumir vilja ekki ræða þetta – aðrir eru í áfalli.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert