Rannsóknin mun standa yfir í marga mánuði

Um helmingur byggingarinnar brann.
Um helmingur byggingarinnar brann. AFP

Danska lögreglan kveðst ekki geta sagt til um það á þessari stund hvort eldsvoðinn í gömlu kauphöllinni, Børsen, verði rannsakaður sem sakamál eður ei. Nú sé unnið að því að rannsaka vettvanginn, en á sama tíma eru slökkviliðsmenn enn að störfum.

Lögreglan segir að unnið sé að því að reyna að komast að því hvar eldurinn kviknaði upphaflega. 

Slökkvistarf stendur enn yfir.
Slökkvistarf stendur enn yfir. AFP

Slökkvistarfi ekki lokið

Slökkvilið borgarinnar reiknar með því að slökkvistarfið muni halda áfram í að minnsta einn sólarhring til viðbótar. 

Helmingur hins 400 ára gamla húss brann og þá féll hin 54 metra háa turnspíra eftir að hafa orðið eldinum að bráð. 

Talsmenn slökkviliðsins segir að slökkvistarfið haldi áfram í dag. Unnið hafi verið að því að slökkva glæður hér og þar í húsinu, þó aðallega í kjallara byggingarinnar. 

Í dag er m.a. unnið að því að tryggja ytra byrði hússins. 

Þá segir lögreglan að nokkrar götur í nágrenninu verði áfram lokaðar fram á mánudag. 

Brian Mikkelsen, forstjóri danska viðskiptaráðsins.
Brian Mikkelsen, forstjóri danska viðskiptaráðsins. AFP

Eldsupptök ókunn

Fram hefur komið að eldurinn hafi átt upptök sín undir koparþaki hússins, en þar stóðu yfir endurbætur fyrir 400 ára afmælishátíð hússins í haust.

Ekki liggur fyrir hvers vegna eldurinn braust út, en ljóst þykir að rannsókn lögreglu muni taka nokkra mánuði. 

Børsen er eitt elsta hús Kaupmannahafnar og eitt helsta kennileiti borgarinnar. Það hýsti danska viðskiptaráðið sem og listasafn, og var nokkur hundruð listaverkum komið til bjargar. 

Efsti hluti drekaspírunnar fannst heill.
Efsti hluti drekaspírunnar fannst heill. AFP

Gaf mönnum von

Brian Mikkelsen, forstjóri danska viðskiptaráðsins, að efsti hluti turnspírunnar hefði fundist heill í gær.

„Þetta gaf okkur von. Því hann mun aftur skreyta okkar fallega vinnustað og kaupmannahöfn,“ sagði hann í færslu sem hann birti á X. 

Børsen er skammt frá danska þinghúsinu og aðsetri ríkisstjórnarinnar. Það var Kristján fjórði sem lét hefja framkvæmdir árið 1619 en þeim lauk árið 1640. Þar var að finna dönsku kauphöllina þar til á áttunda áratug síðustu aldar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert