Skjálftahrinan vakti víðtækan ótta

Margir íbúar Pozzuoli gistu í tjöldum í nótt.
Margir íbúar Pozzuoli gistu í tjöldum í nótt. AFP

Verksmiðjum og skólum nálægt Napólí á Ítalíu var lokað í dag vegna eftirlits eftir að 150 jarðskjálftar, þar á meðal sá stærsti í 40 ár, riðu yfir á svæðinu í gærkvöld.

Engin meiðsl urðu á fólki eða meiriháttar skemmdir á byggingum, en skjálftahrinan vakti víðtækan ótta meðal íbúa. Stærsti skjálftinn mældist 4,4 að stærð.

„Ég er hræddur. Ég opnaði í morgun en það er enginn vegna þess að fólk er hrætt," sagði Gaetano Maddaluno, 56 ára hárgreiðslumeistari í bænum Pozzuoli, við AFP-fréttaveituna í dag.

Gist í tjöldum og skýlum

Margir íbúar Pozzuoli hlupu út af heimilum sínum út á götu í kjölfar skjálftans á mánudagskvöldið og gistu um 80 manns í tjöldum og skýlum sem hafði verið komið upp á nokkrum stöðum í bænum.

39 fjölskyldur voru fluttar frá 13 byggingum í bænum að sögn almannavarnadeildar Pozzuoli og þá voru um 140 fangar í kvennafangelsi bæjarins fluttir á aðrar stofnanir á meðan kannaðar voru skemmdir á fangelsinu.

Margir íbúar Pozzuoli voru óttaslegnir.
Margir íbúar Pozzuoli voru óttaslegnir. AFP

Á annað hundrað jarðskjálftar mældust við Campi Fle­grei-svæðið í gærkvöld en þar er feiknastórt eldfjall og síðast gaus þar árið 1538.

„Það er engin hætta á eldgosi eins og er,“ sagði Gaetano Manfredi, borgarstjóri Napólí, sem varaði við því að ástandið gæti haldið áfram í marga mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert