Tíu konur fórust þegar rúta rann ofan í Níl

Björgunarmenn á vettvangi í dag.
Björgunarmenn á vettvangi í dag. AFP

Í það minnsta tíu kvenkyns starfsmenn í landbúnaði létust í Egyptalandi í dag þegar smárúta rann af ferju og steyptist í fljótið Níl rétt fyrir utan höfuðborgina Kaíró, að sögn yfirvalda í Egyptalandi.

Dagblaðið Al-Ahram greindi fyrst frá slysinu og sagði að ökumaðurinn, sem hefði sleppt handbremsunni af rútunni, hafi verið handtekinn þegar hann reyndi að flýja.

„Tíu eru látnir en dánartalan gæti hækkað,“ segir Hossam Abdelghaffar, talsmaður heilbrigðisráðuneytis Egyptalands, í samtali við AFP-fréttaveituna.

Níu farþegar voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús til aðhlynningar að sögn heilbrigðisráðuneytisins.

Eftir frumrannsókn á vettvangi fyrirskipaði ríkissaksóknari tæknilega skoðun á ökutækinu til að komast að ástæðunum fyrir því að það hefði steypst í fljótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert