Ætlunin að drepa Hamas-liða, segir Ísraelsher

Palestínsk kona heldur utan um barn sem féll í árás …
Palestínsk kona heldur utan um barn sem féll í árás Ísraelshers á Gasaströndinni í kvöld. AFP

Ísraelsher gengst við því að hafa gert árás í Rafah á Gasaströndinni í kvöld, þar sem tugir eru taldir látnir. Herinn heldur því fram að hann hafa ráðist á búðir Hamas-liða en Rauði hálf­mán­inn segir að um flóttamannabúðir sé að ræða.

Palestínski Rauði hálf­mán­inn sagði fyrr í dag að Ísra­elher hafi gert árás á af­markað mannúðarsvæði á Rafah, á Suður-Gasa, þar sem flótta­fólk dvaldi í tjöld­um. Tug­ir hefðu fallið í val­inn og marg­ir væru særðir.

Talið er að börn hafi látist í árásinni. Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja að yfir 30 hefðu verið drepnir.

„Fyrir stuttu síðan réðst herflugvél [ísraelska hersins] á búðir Hamas-samtakanna í Rafah, þar sem mikilvægir hryðjuverkamenn Hamas voru til starfa,“ segir Ísraelsher í yfirlýsingu.

„Grimmilegt fjöldamorð“

Herinn segist „meðvitaður um fréttir sem benda til þess að í kjölfar árásarinnar og eldsvoðans hafi nokkrir almennir borgarar á svæðinu særst.“

Ísrael gerði árásina nokkrum klukkustundum eftir að Hamas-hyrðjuverkasamtökin skutu flugskeytum í átt að borginni Tel Avív í dag.

Einn hlaut minniháttar áverka en þetta var fyrsta sinn í marga mánuði sem Hamas skjóta eldflaugum í átt að borginni.

Alþjóðadóm­stóll­inn skipaði Ísrael á föstudaginn að stöðva inn­rás sína inn á Rafah. Ísrael hefur aftur á móti ekki hlýtt á dómstólinn.

Forsetaskrifstofa Palestínu segir í yfirlýsingu að Ísraelar hafi framið „grimmilegt fjöldamorð“ með árásinni á búðirnar búðunum í Rafah í kvöld. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert