Tvö þúsund manns grófust lifandi undir skriðunum

Gríðarlega umfangsmikil leit stendur nú yfir á svæðinu.
Gríðarlega umfangsmikil leit stendur nú yfir á svæðinu. AFP/ Mohamud Omer/

Rúmlega tvö þúsund manns grófust lifandi undir aurskriðum sem féllu yfir þorp og vinnubúðir í Papúa Nýju–Gíneu á föstudag. Þetta tilkynntu yfirvöld á eyjunni Sameinuðu þjóðunum í dag. 

Yfirvöld heimsóttu hamfarasvæðið í gær.

Tala látinna hefur verið á reiki. Í fyrstu var talið að nokkrir tugir hefðu farist en ekki leið á löngu þar til staðfestur fjöldi látinna var kominn í 670. Var þó við búið að mun fleiri hefðu grafist undir skriðunum.

Aðstæður á svæðinu eru hættulegar þar sem jarðvegurinn er blautur.
Aðstæður á svæðinu eru hættulegar þar sem jarðvegurinn er blautur. AFP

Enn mikil hætta

Aurskriðurnar ollu mikilli eyðileggingu á byggingum og matjurtagörðum og kemur til með að hafa mikil áhrif á efnahagslíf í landinu, að sögn Lusete Laso Mana, starfsmanns í hamfaramiðstöð á svæðinu, í bréfi til Sameinuðu þjóðanna. 

Í bréfinu var lögð áhersla á að aðstæður til björgunar á svæðinu væru erfiðar.

Aðalhraðbrautin að svæðinu er lokuð, segir í bréfinu, og jörðin enn óstöðug þar sem vatn rennur undir jarðveginum. Það er því enn mikil hætta fyrir bæði björgunarsveitir og eftirlifendur á svæðinu. 

Gríðaleg eyðilegging varð vegna skriðunnar.
Gríðaleg eyðilegging varð vegna skriðunnar. AFP

Reiðubúin að aðstoða 

Tedros Adhanom Ghebr­eyes­us, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO), hefur lýst yfir mikilli sorg vegna málsins og segir stofnun Sameinuðu þjóðanna reiðubúna til að aðstoða. 

„Hjörtu okkar eru hjá fólkinu í Papúa Nýju-Gíneu sem missti ástvini í skriðunum. Við erum reiðubúin að styðja ríkisstjórnina til að mæta brýnum heilbrigðisþörfum,“ skrifaði Ghebreyesus á miðilinn X. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert