Dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir manndráp

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag mann á þrítugsaldri í 14 ára fangelsi fyrir að verða ungri stúlku að bana í maí í fyrra í Engihjalla í Kópavogi. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða foreldrum stúlkunnar 1,7 milljónir króna í bætur auk sakarkostnaðar sem nemur rúmri milljón króna.

Maðurinn, sem heitir Ásgeir Ingi Ásgeirsson, var sakfelldur fyrir að hafa hrint Áslaugu Perlu Kristjónsdóttur, 21 árs, yfir 119 cm handrið á svölum á 10. hæð fjölbýlishúss við Engihjalla og þannig orðið henni að bana. Ásgeir, sem er 24 ára, neitaði sakargiftum fyrir fjölskipuðum héraðsdómi. Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að útilokað sé að stúlkan hafi farið öðru vísi yfir handriðið en fyrir tilverknað Ásgeirs Inga með þeim afleiðingum að hún hlaut bana af. Í ítarlegri matsgerð Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors í eðlisfræði, sem unnin var að beiðni réttarins, kemur fram að útilokað sé að framburður Ásgeirs Inga um hvernig fall Áslaugar Perlu bar að, standist út frá eðlisfræðilegum rökum, en hann hélt því fram að hún hefði fallið að handriðinu og fram yfir það eftir að hann ýtti á öxl hennar úti á svölunum. Matsgerð þótti og renna stoðum undir það mat dómenda að sú frásögn ákærða fái ekki staðist að fall Áslaugar Perlu hafi borið að með einfaldri hrindingu. Í því sambandi er vísað til hæðar svalahandriðsins, sem er 1,19 metrar, hæðar Áslaugar Perlu sjálfrar og þeirrar staðreyndar að líkami hennar hafnaði 4,2 metra frá lóðlínu svalanna, sem þótti sanna að láréttur hraði Áslaugar Perlu fram af svölunum hafi verið sambærilegur röskum gönguhraða. „Þá er einnig til þess að líta að Áslaug Perla var nánast fjötruð um fætur með buxurnar um ökkla. Það er því mat dómenda með hliðsjón af framantöldum gögnum að frásögn ákærða fái ekki staðist," segir í dómnum en er lík stúlkunnar fannst voru smekkbuxur vafðar um ökkla hennar. Í krufningarskýrslu segir að svo sé að sjá að buxurnar hafi verið þannig dregnar niður er Áslaug lenti á jörðinni, því buxurnar hafi fallið fremur þétt að fótleggjum.

Líkti eftir falli með blístri


Vísað er einnig til hegðunar Ásgeirs Inga eftir atburðinn en við handtöku og flutning hans til líkamsskoðunar á Landsspítalanum í Fossvogi hótaði hann m.a. lögreglumönnum og börnum þeirra lífláti er hann losnaði úr fangelsi eftir 10-15 ár vegna þess verknaðar sem hann hefði framið. Segir að hann hafi og hvatt lögreglumenn til að sýna sér harðræði í lögreglubifreiðinni og hafði á orði að áverkar kynnu að draga eitt ár frá dómi hans. Á Landspítalanum tók Ásgeir Ingi upp á því að flauta og líkja með þeim hætti eftir falli hlutar úr mikilli hæð með tilheyrandi dynki við lendingu. Ákærði endurtók blístur sitt á spítalanum ásamt því að ítreka áðurgreinda hótun sína við lögreglumenn, kemur fram í dómnum. Við mat á sök ákærða segir í dómnum að ekki verði litið fram hjá háttsemi hans strax eftir handtöku og því að hann viðurkenndi hjá lögreglu að hann ætti sök á andláti Áslaugar Perlu, þrátt fyrir að frásögn hans af því með hvaða hætti það gerðist fengist ekki staðist nánari skoðun. „Um atburðarásina á svölunum er ekki unnt að fullyrða nákvæmlega. Án vafa má þó útiloka að andlát Áslaugar Perlu hafi getað borið að með þeim hætti er ákærði hefur lýst, eða að hún hafi sjálf komið sér yfir svalahandriðið. Það verður því að telja útilokað að hún hafi farið öðruvísi yfir handriðið en fyrir tilverknað ákærða," segir ennfremur í dómnum.

Dæmdur til að borga útfararkostnað


Í honum segir ennfremur að fullyrða megi að á þeirri stundu, sem Ásgeir Ingi kom stúlkunni út yfir svalahandriðið hlyti honum að hafa verið ljóst að slík atlaga leiddi óhjákvæmilega til dauða hennar. Telja verði að hann hafi framið verknaðinn í mikilli reiði eða heift. Ekki hafi þó komið fram ástæður er gefa tilefni til að álykta að Áslaug Perla hafi vakið þessa reiði hjá honum að til málsbóta teldist. Ásgeir Ingi var dæmdur til að borga foreldrum Áslaugar Perlu miskabætur að upphæð 600.000 krónur hvoru og föður hennar að auki 413 þúsund krónur vegna útfararkostnaðar og 125.000 vegna áætlaðs kostnaðar við kaup á legsteini. Auk áfallins sakarkostnaðar var Ásgeir Ingi og dæmdur til að borga málsvarnarlaun verjenda síns, 800.000 krónur, og réttargæslumanns foreldranna, 200.000 krónur.
mbl.is