Kostir og gallar fylgja eignaraðild kjölfestufjárfestis

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja ráðandi hlut, þriðjung eða meira, í Landsbanka Íslands hf. til erlends kjölfestufjárfestis sætir miklum tíðindum. Björn Ingi Hrafnsson rifjar af því tilefni upp fregnir af áhuga sænska SE-bankans fyrir þremur árum á því að kaupa Landsbankann og víðtæka umræðu um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum sem fylgt hefur í kjölfar einkavæðingar ríkisbankanna.Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudag að selja ráðandi hlut, þriðjung eða meira, í Landsbanka Íslands hf. til erlends kjölfestufjárfestis og standa vonir til þess að gengið verði frá sölunni fyrir lok ársins.

Í tilkynningu vegna sölunnar sagði: "Viðskiptaráðherra hefur ákveðið að hafinn verði undirbúningur á sölu á umtalsverðum hlut af eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. til kjölfestufjárfestis. Með umtalsverðum hlut er átt við ráðandi hlut eða að minnsta kosti þriðjung hlutafjár í félaginu. Ráðgert er að salan fari fram fyrir árslok 2001. Skilyrði samkvæmt ákvörðun ráðherra er að sala á slíkum hlut leiði til aukinnar samkeppni á íslenskum fjármagnsmarkaði og auki samkeppnishæfni hans. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur verið falið að annast framkvæmd sölunnar."

Umræða um sölu á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum er ekki ný af nálinni, en segja má að hún hafi staðið óslitið yfir frá sumri 1998, en þá varð ljós sá vilji ríkisstjórnarinnar að kanna kosti þess að selja hluta af eignarhlut ríkisins í þremur fjármálastofnunum, Fjárfestingabanka Íslands (FBA), Landsbanka og Búnaðarbanka. Mikla athygli vakti þetta sumar þegar forráðamenn Sparisjóðanna lýstu vilja sínum til að eignast FBA, bankaráð Íslandsbanka gerði kauptilboð í Búnaðarbankann og stjórnvöld fóru í formlegar könnunarviðræður við sænska bankann Skandinaviska Enskilda Banken, eða SE-bankann, um kaup á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands.

Athyglisvert er í ljósi ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá í vikunni, að rifja upp þessa atburðarás, ummæli þeirra sem helst véluðu um lyktir mála og þá þróun um sölu ríkisfyrirtækja sem ljóst er að mun halda áfram á næstu árum, að því er fram hefur komið í orðum ráðherra ríkisstjórnarinnar að undanförnu.

Það var í lok júlí 1998, sem Morgunblaðið skýrði frá því í frétt á baksíðu að SE-bankinn í Svíþjóð hafi lýst áhuga á að kaupa hlut í Landsbanka Íslands hf. og jafnframt lýst sig fylgjandi hugmyndum um að Landsbankinn keypti þann helmingseignarhlut í Vátryggingarfélagi Íslands hf. sem bankinn átti ekki. Yrði sá eignarhluti greiddur með hlutafé í Landsbanka Íslands hf., sennilega um 20% eignarhlut í bankanum. Kom fram, að það skilyrði væri sett fram af hálfu hins sænska banka að hann fengi keyptan hreinan meirihluta hlutafjár í Landsbankanum eða nægilega stóran minnihluta til þess að ráða bankanum miðað við dreifða eignaraðild að öðru leyti.

Greint var frá því að fulltrúi frá sænska bankanum hafi verið á ferð hér á landi nokkrum dögum áður til að ræða þessar hugmyndir við fulltrúa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Í framhaldi af því hafi áhugi SE-bankans verið ræddur meðal ráðherra, en hugmyndirnar hafi hins vegar ekki komið til umræðu á fundum þingflokka stjórnarflokkanna. Sagði í fréttinni að samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins virðist forráðamenn Framsóknarflokksins hlynntir því að sænski bankinn verði stór hluthafi í Landsbanka Íslands, en sjálfstæðismenn séu hins vegar varkárari gagnvart þessum hugmyndum.

Mikið var fjallað um hugsanleg kaup Enskildabankans á Landsbankanum í fjölmiðlum hér á landi næstu daga á eftir og var m.a. haft eftir Finni Ingólfssyni, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að hann hefði ekki orðið var neinn ágreining milli stjórnarflokkanna um þetta mál. "Umræðan er ekki komin á það stig að hún komi fram í einhverjum ágreiningi milli flokkanna. Ég hef átt frumkvæði að því að koma með tillögur í þessum efnum og þeim hefur verið tekið vel af þeim ráðherrum, sem um málið hafa fjallað," sagði Finnur.

Innlendir aðilar vildu ræða kaup

Sá möguleiki að ráðandi eignarhluti í Landsbankanum félli í hendur erlends banka hugnaðist ekki öllum og m.a. gagnrýndu forsvarsmenn íslenskra fjármálafyrirtækja mjög að ekki væri leitað eftir kaupendum að bankanum innan landsteinanna.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði af þessu tilefni mikilvægt við endurskipulagningu á íslenskum fjármálamarkaði, að ríkisvaldið leitist við að tryggja að hér verði virk samkeppni á fjármálamarkaði. Hægt sé að ganga það langt í sameiningu innlendra fjármálastofnana að of lítil samkeppni verði á markaðinum. M.a. þess vegna væri ávinningur af því ef erlendur banki kaupi hlut í Landsbankanum.

Halldór sagði að það væri að sjálfsögðu skylda stjórnvalda að kanna einnig áhuga innlendra fjárfesta og tryggja þannig að sem hæst verð fáist fyrir hlutabréf ríkisins í Landsbankanum.

Halldór sagðist ekki hafa talað fyrir því að erlendur banki eignaðist meirihluta í Landsbankanum. Æskilegt væri að slíkur banki væri í minnihluta, en ætti þó það stóran hlut að hann gæti haft áhrif á rekstur bankans.

Fleiri lýstu yfir áhyggjum af samþjöppun á fjármálamarkaði og Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði í viðtali við Morgunblaðið í ágústbyrjun 1998 að tryggja yrði dreifða eignaraðild.

Forsætisráðherra sagði að þegar sú ákvörðun hefði verið tekin að breyta bönkunum í hlutafélög hefði mátt vera ljóst að eignarhlutur ríkisins í bönkunum yrði seldur í fyllingu tímans.

Davíð sagðist telja mikilvægt að eignarhald í bönkunum yrði dreift og væri sem hlutlausastir gagnvart viðskiptalífinu. Hann benti á að ef einhverjum aðilum í viðskiptalífinu tækist að ná mjög sterkum tökum á einstökum bönkum þá væri hætt við að einkasjónarmið þeirra og skammtímahagsmunir gætu bitnað á arðsemikröfum sem bankinn ætti að lúta.

"Sumar þjóðir hafa það reyndar svo að þær binda það í lög hversu mikil eignarhlutdeild einstakra aðila má vera í bönkunum. Ég hygg að það sé til að mynda þannig í Noregi. Það má vel vera að slíkt gæti verið skynsamlegt að gera einnig hér á landi. A.m.k. er það æskilegt að menn hafi ekki á tilfinningunni að það séu einhver önnur sjónarmið sem ráði stefnu banka en almenn arðsemisjónarmið eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps," sagði forsætisráðherra ennfremur.

Í lok viðtalsins beindist talið að s.k. kjölfestufjárfestum, en eins og kunnugt er, stefnir ríkisstjórnin að því að slíkur aðili eða aðilar kaupi hlut í Landsbankanum í þeirri sölu á hlutafé ríkisins sem nú hefur verið ákveðin.

"Davíð sagði að þó nú sé tíska að tala um kjölfestufjárfesta telji hann að í bankastofnun geti alveg dugað að stærstu eignaraðilarnir, sem komi til með að hafa leiðbeinandi forystu um reksturinn, eigi eignarhluti á bilinu 3% til 8% til dæmis. Hann telji hins vegar ekki æskilegt að einn aðili eða skyldir aðilar ráði 30-40% eignarhlut í bankastofnun. Það sé engin nauðsyn á eigendum með stærri eignarhlut en að ofan greinir og við slíkar aðstæður geti eignaraðilar með 2-3% eignarhlut haft veruleg áhrif á reksturinn, auk þess sem þeir væru líklegastir til þess að knýja á um að arðsemisjónarmið réðu ferðinni. Þótt það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn telji hann að það komi fyllilega til álita að tryggja það með lagasetningu að eignarhaldi í bönkunum, þegar ríkið sleppi af þeim hendinni, verði dreift. Um fordæmi í þeim efnum gætum við litið til annarra landa og jafnframt að það yrði einnig tryggt að það væru eingöngu arðsemisjónarmið sem réðu fjárfestingu fjárfesta á borð við lífeyrissjóði, eins og áður var nefnt," sagði í Morgunblaðinu 8. ágúst 1998.

Verða að vera sannfærðir um að selja lungann úr elsta banka landsins

Síðan var haft eftir forsætisráðherra í viðtalinu að sumir hefðu reyndar haldið því fram að það gæti skaðað hagsmuni Íslendinga ef einhver einn erlendur banki eignaðist ráðandi hlut í öflugum banka hér, þar sem það myndi valda því að aðrir bankar, sem hefðu keppst um að veita okkur þjónustu, myndu halda að sér höndum. Sá banki sem eftir yrði gæti þannig fengið ráðandi stöðu á markaðnum. Þetta væri einn þáttur sem yrði að skoða í þessu samhengi.

Hann teldi hins vegar að það hefði verið glapræði að fara ekki út í viðræður við erlendan aðila sem sýndi áhuga á því að kaupa hlut í íslenskum banka og skoða það mál til hlítar. "En eins og ég hef orðað það, verða menn samt sem áður í lokin að vera afskaplega sannfærðir um að það sé skynsamlegt skref að selja lungann úr elsta banka landsins og þeim stærsta til eins ráðandi aðila. Við sjáum það reyndar hér á Norðurlöndunum, að það eru hygg ég, víðast hvar, í samþykktum bankanna, settar girðingar gagnvart slíku. Hins vegar kæmi til álita að skoða einnig möguleika á því að eiga samstarf, jafnvel með gagnkvæmri eignaraðild íslenskra og erlendra banka. Allt þetta þurfum við að skoða. Þetta er allt dálítið nýtt fyrir okkur. Það er þýðingarmikið að loka engum leiðum, en jafnframt ekki síður þýðingarmikið að fara að með mikilli gát, því hlutir verða ekki svo auðveldlega aftur teknir," sagði Davíð Oddsson.

Forráðamenn stjórnarflokkanna héldu þannig öllu opnu gagnvart framkomnum hugmyndum um sölu á hlut í Landsbankanum, án þess að nokkur ákvörðun hefði verið tekin. Þannig var jafnan í viðræðunum við SE-bankann lögð áhersla á að um könnunarviðræður væri að ræða, en ekki eiginlegar samningaviðræður.

Hið sama gilti um tilboð Íslandsbanka í Búnaðarbanka Íslands hf. Tilboðið, sem sett var fram í ágústbyrjun 1998, hljóðaði upp á 8 milljarða króna.

Talsmenn Íslandsbanka færðu fram þau rök fyrir tilboðinu, að með sameiningu þessara tveggja banka myndi nást fram veruleg hagræðing í bankastarfsemi á Íslandi. Þeir töldu að lækka mætti heildarkostnað um allt að milljarð og vísuðu til þess, að Íslandsbanki hefði mikla reynslu af því að ná fram slíkri hagræðingu vegna þeirrar sameiningar, sem lá að baki stofnun bankans sjálfs.

Til krafna ríkisvaldsins um dreifða eignaraðild, vísuðu forsvarsmenn Íslandsbanka til þess að hluthafar í Íslandsbanka væru um 6.300, þar af 5.900 einstaklingar. Lífeyrissjóðir með 60 þúsund virka sjóðfélaga væru stærstu hluthafar í bankanum og áhugi væri fyrir því að dreifa hlutafé enn meira.

Þar með var ljóst í ágústmánuði árið 1998 að sænskur banki vildi seilast til valda í Landsbankanum og Íslandsbanki vildi kaupa Búnaðarbankann í heilu lagi. Ljóst var því að viðskiptabankarnir voru verðmætari eign á markaði en margir hugðu og til að flækja málið enn frekar var ágústmánuður ekki hálfnaður þegar forráðamenn Búnaðarbanka kynntu áform sín um kaup á öðrum ríkisbanka, nefnilega Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Nóg var um að vera á skrifstofu fjármálaráðherra, því aðeins örfáum dögum áður hafði verið ákveðið að taka upp könnunarviðræður við Samband íslenskra sparisjóða um kaup sparisjóðanna á öllu hlutafé í FBA.

Skyndileg kúvending stjórnvalda

Allt útlit var þannig fyrir umtalsverð tíðindi á fjármálamarkaði og jafnvel mjög skert umsvif ríkisvaldsins á honum, þegar stjórnvöld kúventu skyndilega í afstöðu sinni og tóku þá ákvörðun að fresta um sinn sölu á viðskiptabönkunum tveimur, en stefna hins vegar að sölu á 49% hlutafjár í Fjárfestingabanka atvinnulífsins.

Þar með var ljóst að hætt yrði viðræðum við sænska SE-bankann um kaup á eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. og jafnframt var tilboði Íslandsbanka í Búnaðarbanka Íslands hf. hafnað og viðræðum við sparisjóðina um kaup á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hætt. Hins vegar var ákveðið að gefa út 15% nýtt hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum og selja það almenningi og leita eftir heimild Alþingis til að selja allt hlutafé í Fjárfestingarbankanum, en sjálfstæði hans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði yrði þó tryggt.

"Ríkisstjórnin telur að umræðurnar að undanförnu hafi verið mjög gagnlegar og þær hafi stuðlað að betri skilningi á nauðsyn hagræðingar í bankakerfinu og þeim gífurlegu breytingum sem orðið hafa á rekstri fjármálafyrirtækja á undanförnum mánuðum, misserum og árum," sagði Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra á blaðamannafundi í ágústlok vegna þessarar stefnumótunar ríkisstjórnarinnar. "En það er okkur hins vegar alveg ljóst að sú umræða er stutt á veg komin. Því teljum við rétt að láta frekar reyna á rekstur bankanna í nýju rekstrarformi, þ.e.a.s. í hlutafélagaforminu, og nýta betur þau sóknarfæri sem eru til staðar að óbreyttu, svo sem með skráningu á Verðbréfaþingi áður en til sölu á hlutafé ríkissjóðs kemur."

Umræðan um sölu á hlut ríkisins í bönkunum hélt síðan áfram samhliða sölu á 15% hlut í viðskiptabönkunum tveimur og sölu á 49% hlutafjár í FBA. Hún náði hins vegar óþekktum hæðum síðla sumars 1999, en þá var staðan orðin sú að sparisjóðirnir og verðbréfafyrirtæki þeirra höfðu eignast mjög stóran hlut í FBA og ljóst að hugmyndir voru innan sparisjóðanna um sameiningu FBA og Kaupþings.

Sprenging varð síðan um verslunarmannahelgina það ár, þegar upp komst að hlutabréf í FBA höfðu verið seld Orca S.A., eignarhaldsfélagi í Lúxemborg, fyrir um fimm milljarða kr. Viðskiptin fóru þannig fram að Orca S.A. keypti dótturfyrirtækið Scandinavian Holding S.A. í Lúxemborg, sem átti 22,1% hlutafjár í FBA. Jafnframt hafði Orca keypt viðbótarhlutafé í Fjárfestingabankanum og nam hlutur þess eftir kaupin um 26,5%.

Eftir sem áður átti ríkissjóður 51% hlutafjár í FBA, en afganginn ýmsir fjárfestar og fjármálastofnanir, þar á meðal Sparisjóðirnir.

Mikil leynd hvíldi yfir því hverjir væru í raun eigendur Orca fyrst eftir viðskiptin en engu að síður birti Morgunblaðið daginn eftir upplýsingar um helstu aðila Orca-hópsins. Síðar héldu forráðamenn Orca blaðamannafund þar sem fram kom að fjórir hópar fjárfesta ættu jafnan hlut í eignarhaldsfélaginu.

Á fundinum kom fram að Jón Ólafsson, stjórnarformaður Norðurljósa, Þorsteinn Már Baldvinsson, framkvæmdastjóri Samherja, Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og Eyjólfur Sveinsson, útgáfustjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, færu fyrir þessum fjórum hópum og væri Eyjólfur stjórnarformaður Orca S.A.

Hörð viðbrögð forsætisráðherra

Sitt sýndist hverjum um þessi tíðindi og ekki síst hvernig þau bar að. Í þann mund sem fréttist af kaupum Orca á bréfum Scandinavian Holding, höfðu nefnilega staðið yfir viðræður milli Kaupþings og hóps fjárfesta, þeirra á meðal Kára Stefánssonar og Hofs, um kaup á hlutafénu.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði þannig að umrædd kaup hefðu áhrif á hugmyndir um sölu á öðrum bönkum og taldi koma til greina að breyta lögum til að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum.

"Það má vel vera að staðan sé sú að sú aðferð okkar að reyna að koma út með dreifðum hætti haldi ekki til lengdar og þá þarf kannski að kanna hvort aðrar lagaforsendur þurfi að vera fyrir hendi sem tryggi hreinlega að eignaraðild að fjármálakerfinu í þessu landi sé dreifð. Íslenska þjóðríkið er þannig vaxið að það er ekki hollt fyrir það að vera í höndunum á mjög fáum aðilum," sagði Davíð meðal annars í fréttum Ríkissjónvarpsins að kvöldi 7. ágúst 1998.

Í fréttum Stöðvar 2 sagði Davíð að hugsunin væri sú að ef einhverjir eignaraðilar væru mjög stórir í slíkum kerfum eins og bönkunum væri hætt við því að þeir tækju ákvarðanir sem þjónuðu ekki endilega alltaf bankanum heldur jafnvel hagsmunum hins stóra sem skaðaði þá hagsmuni hins litla sem eiganda í bankanum.

Mótleikur ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin kom með mótleik í lok september 1998, þegar áform um sölu á 51% hlut ríkissjóðs í FBA voru kynnt. Þar með var orðið ljóst að ríkið ætlaði að losa bankann alfarið úr eigu sinni. Forsætisráðherra sagði af þessu tilefni að ríkisstjórnin hefði náð fram markmiðum sínum varðandi sölu á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins með því fyrirkomulagi sem yrði á 51% hlut ríkisins. Það hefði hins vegar aldrei vakað fyrir stjórninni að hafa áhrif á það hverjir ættu bankann eftir að hann hefði verið seldur. Hins vegar hefði blasað við að verðgildi hlutar ríkisins myndi rýrna vegna þess hve lítið eignarhaldsfyrirtækið Orca hefði þurft að bæta við eign sína til að öðlast ráðandi hlut, en með því fyrirkomulagi, sem ákveðið hefði verið, væri komið í veg fyrir það.

Í ákvörðun ríkisstjórnarinnar fólst að undirbúningur útboðs á hlut ríkisins í FBA færi fram í október og tilboð yrðu opnuð 5. nóvember. Davíð sagði að hugsunin að baki þessu fyrirkomulagi væri sú að hlutur ríkisins í Fjárfestingarbankanum, 51%, yrði seldur í einu lagi til að tryggja að hámarksverð fengist fyrir hann.

"Aðdragandi þess er mönnum kunnur því það var vilji ríkisstjórnarinnar að bankinn færi í dreifðri eignarsölu. Síðan kom á daginn að það hafði átt sér stað heilmikill rakstur á hlutabréfum í eina átt. Síðan fór fram sala til eins aðila og á bak við þá sölu hefur verið upplýst að liggi leynilegur samningur, sem þó hefur ekki verið birtur, um að sameiginlega sé unnið að yfirtöku bankans milli seljandans og kaupandans," sagði Davíð Oddsson í viðtali við Morgunblaðið.

Davíð sagði að þegar þetta hefði legið fyrir hefði verið augljóst að það markmið ríkisstjórnarinnar að bankinn yrði í dreifðri eignarsölu hefði verið skemmt og til viðbótar væri hættan sú að stór hluti af bréfum ríkisins yrði verðlítill vegna þess að þessir aðilar þyrftu mjög lítið að bæta við sig til að ná yfirráðum yfir bankanum.

Þess vegna sagði forsætisráðherra að ákveðið hafi verið að selja hlutinn í einu lagi gegn staðgreiðslu og hæsta verði. Jafnframt hafi verið ákveðið að reyna að hafa skilmála með þeim hætti að auðveldast væri fyrir sem flesta aðila að bjóða.

"Það þýðir að menn verða að hópa sig saman og enginn þeirra má eiga meira en sex prósent. Þannig að innan þess hóps verður um dreifða hlutdeild að ræða," sagði forsætisráðherra.

Davíð sagði að í þessu tilviki kæmi ekki til álita að hafa áhrif á hvernig eignaraðild yrði háttað með lagasetningu. Hins vegar teldi hann að skoða ætti slíka hluti, enda hefði komið á daginn að mjög víða væru slíkar reglur í gildi, öfugt við það, sem ýmsir hefðu fullyrt.

"Og það er ekki bara svo að þær séu víða í gildi, heldur eru þær í raun virtar annars staðar þótt þær séu óskráðar. Því miður er okkar fjármálakerfi svo vanþroskað að við þurfum kannski í byrjun á skráðum reglum að halda á meðan hinar óskráðu eru ekki byrjaðar að virka eins og verður vonandi þegar markaðurinn þroskast."

Og forsætisráðherra sat ekki við orðin tóm. Í nóvember árið 1999 var afgangurinn af hlut ríkisins í FBA seldur og í fyrra seldi ríkissjóður lítinn hlut í báðum viðskiptabönkunum til almennings með útboðssölu. Áfram var krafan um dreifða eignaraðild áberandi og enginn skortur var á sérfræðingum á markaði til að tjá sig um möguleika á reglum um eignaraðild og hvort yfirhöfuð væri raunhæft að ætla sér að setja slíkar reglur.

Þannig sagði Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins og fyrrverandi bankamálaráðherra, í samtali við Dag að hann efaðist um að slíkt væri hægt. "Ég hef ekki trú á því, að gerlegt sé að setja lög til að tryggja dreifða eignaraðild, sem halda þegar fram í sækir. Ég er alveg viss um, að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hefði aldrei orðað þessa lagasetningu ef þeir sem eru að kaupa fjórðung í FBA væru honum þóknanlegir. Ég tel, að þetta tal forsætisráðherra um lagasetningu sé sprottið af því að hann vilji setja lög sem banni Jóni Ólafssyni í Skífunni að kaupa hlutabréf," sagði Sighvatur m.a.

Hins vegar upplýsti Gunnar Þ. Andersen, framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs Landsbankans, að eignarhald á bönkum á Norðurlöndunum væri einmitt áberandi dreift, ef Noregur væri undanskilinn.

Í tengslum við hlutafjárútboð Landsbankans hafði eignarhald á bönkum í nágrannalöndunum verið kannað og borið saman við eignarhald á íslenskum bönkum.

Í könnuninni kom í ljós að stærstu hluthafar í dönsku bönkunum Den Danske Bank, Unibank og Jyske Bank voru lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir. Eignarhlutur eins sjóðsins var 14,1% og var það stærsti hlutur sem einstakur aðili átti í dönskum banka. Í Svíþjóð var stærsti einstaki eignarhluturinn 18,6% í Foreningssparbanken í eigu stofnunar sem sparisjóðir áttu. Annars fór stærsti eignarhlutinn ekki yfir 10%.

Stærsti einstaki hluthafinn í tveimur norskum bönkum var norska ríkið sem átti 52% í Den Norske Bank og 35% í Christiania Bank. Í Union Bank of Norway var Chase Manhattan Bank stærsti hluthafinn með 5,22% eign.

Hringnum lokað með lögum í vor

Segja má að hringnum í umræðunni um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjunum hafi síðan verið lokað af hálfu stjórnvalda í vor, þegar samþykkt var sem lög frá Alþingi frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum.

Með hinum nýju lögum er ætlunin að auka eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í lánastofnunum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og vátryggingafélögum. Fjármálaeftirlitinu er falið að kanna ítarlega hæfi allra þeirra einstaklinga og lögaðila sem hafa í hyggju að eignast virka eignarhluti í framangreindum fyrirtækjum. Það verður t.d. dæmis gert með þeim hætti að Fjármálaeftirlitinu er falið að gera úttekt á hæfi slíkra aðila þegar þeir hyggjast eignast virkan eignarhlut og jafnframt á meðan á eignarhaldstímanum stendur, eftir að upphaflega fjárfestingin hefur verið samþykkt.

Lögin ná til eignarhalds í viðskiptabönkum, sparisjóðum, öðrum lánastofnunum en viðskiptabönkum og sparisjóðum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og vátryggingafélögum.

Eignarhald á stórum hlutum verður hér eftir háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið nær til eigenda svonefndra virkra eignarhluta en í lögum hefur með því hugtaki verið átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fjármálafyrirtækis. Jafnframt er samþykki Fjármálaeftirlitsins áskilið þegar eignarhald vex upp fyrir tiltekin mörk.

Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að tilgangurinn með því væri einkum sá að draga úr hættunni á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á rekstur þeirra. Viss hætta þyki á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum beiti áhrifum sínum, sem fylgja eignarhaldinu, í því skyni að afla sjálfum sér ávinnings á kostnað fyrirtækjanna, annarra hluthafa eða eftir atvikum annarra viðskiptavina.

"Slík háttsemi er skaðleg viðkomandi fyrirtækjum og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á fjármagnsmarkaðnum. Ætla má að smæð íslensks fjármálamarkaðar auki enn frekar á hættuna á slíkri misnotkun, enda geta tiltölulega litlar fjárfestingar fært fjárfestum meiri áhrif í íslenskum fjármálafyrirtækjum en erlendum. Því er sérlega brýnt að styrkja eftirlitið með stórum fjárfestum hér á landi."

Í athugasemdunum var einnig vikið að þeim kostum og göllum, sem slíkri lagasetningu fylgi: "Þrátt fyrir að ókostir geti fylgt því að einstakir hluthafar eigi stóra eignarhluti er frumvarpinu ekki ætlað að girða fyrir það. Það skýrist af því að stórum eignarhlutum geta einnig fylgt kostir, enda geta þeir stuðlað að ákveðnu jafnvægi og stöðugleika og laðað að hæfa fjárfesta sem stuðla að framþróun viðkomandi fyrirtækja og markaðarins alls. Því er frumvarpinu ætlað að veita slíkum hluthöfum aðhald, án þess að hrekja þá frá, og treysta með því trú almennings á heilbrigði fjármálamarkaðarins, enda má telja það eitt af hlutverkum hins opinbera."

Lögin, sem voru samþykkt með atkvæðum yfirgnæfandi meirihluta þingmanna 18. maí sl., setja þannig eigendum eignarhluta í fjármálafyrirtækjum vissar skorður, en um leið útiloka þau ekki stóra kjölfestufjárfesta, þar sem "stórum eignarhlutum geta einnig fylgt kostir".

Gert er ráð fyrir að gengið verði frá sölunni á umtalsverðum hlut ríkisins í Landsbankanum, þriðjungi hlutafjár eða meira, fyrir lok ársins.

Innlent »

Tillagan okkar eða tillagan ykkar?

16:46 Tvær keimlíkar tillögur voru á dagskrá borgarstjórnar í dag, um að bæta stöðu barna með annað móðurmál en íslensku í skólakerfi borgarinnar. Olli það nokkru argaþrasi á meðal borgarfulltrúa. Sjálfstæðismenn sögðu að meirihlutinn vildi eigna sér málið. Meira »

Fjórum milljörðum dýrari leið

16:29 Hin svokallaða R-leið um Reykjanes og utanverðan Þorskafjörð er töluvert dýrari en Þ-H-leiðin sem Vegagerðin mælir með. Þetta er niðurstaða skýrslu Vegagerðarinnar. Meira »

Tilkynnt um mun færri kynferðisbrot

16:15 Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust sjö tilkynningar um kynferðisbrot í september og hafa þær ekki verið færri á einum mánuði síðan í febrúar 2014. Tilkynningarnar voru einnig 70% færri en meðaltalið síðustu 12 mánuði. Meira »

Aldrei verið sótt um leyfi fyrir stækkun

15:55 Ekki er til staðar byggingarleyfi og enn hefur ekki verið sótt um slíkt leyfi fyrir byggingaframkvæmdum vegna stækkunar City Park Hótel við Ármúla 5 í Reykjavík. Þrátt fyrir það hefur vinna staðið yfir við stækkunina um tíma, en verið er að bæta við 27 herbergjum. Fyrir voru herbergin 57. Meira »

Hjúkrunarfræðingar ávísi getnaðarvörnum

15:47 Ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum verður heimilað að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum, verði frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu að lögum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leggja frumvarpið fram á Alþingi og kynnti hún efni þess á ríkisstjórnarfundi á dag. Meira »

Skútuþjófurinn yfirheyrður í gær

15:44 Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á skútuþjófnaði á Ísafirði aðfaranótt sunnudags miðar vel samkvæmt Hlyni Hafberg Snorrasyni, yfirlögregluþjóni. Maður var handtekinn um borð í skútunni á Rifi á Snæfellsnesi á sunnudag og úrskurðaður í farbann í gær. Meira »

Óforsvaranlegt að samþykkja frumvarpið

15:41 Nýtt frumvarp um veiðigjöld ýtir enn frekar undir tvöfalda verðmyndun í sjávarútvegi, mismunar fyrirtækjum og hefur neikvæð áhrif á samkeppni í greininni. Þetta segir í umsögn Félags atvinnurekenda og Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda um frumvarpið. Meira »

Spyr um þýðingarstefnu ráðuneytanna

15:30 Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, hefur sent öllum ráðuneytunum níu fyrirspurn þess efnis hvort íslensk lög og reglugerðir á vegum ráðuneytanna og undirstofnana þeirra hafi verið þýdd á önnur tungumál. Meira »

Netþrjótar náðu til 2.500 Íslendinga

15:13 Öryggisbrestur sem varð hjá Facebook í síðasta mánuði hafði áhrif á tæplega 2.500 notendur samfélagsmiðilsins á Íslandi. Persónuvernd tekur þátt í rannsókninni ásamt persónuverndarstofnunum annarra EES-ríkja. Meira »

Mál gegn hjónum þingfest í næstu viku

15:08 Mál gegn hjónum sem grunuð eru um gróf kynferðisbrot gegn dótt­ur sinni og stjúp­dótt­ur verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudaginn í næstu viku. Verður þinghald lokað eins og vaninn er í kynferðisbrotamálum. Meira »

„Hættum að plástra kerfið“

14:24 „Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með manneskjum sem vilja fá hjálp og vilja hætta að neyta eiturlyfja en rekast á veggi í kerfinu aftur og aftur og aftur,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag. Meira »

Segja innri endurskoðun störfum hlaðna

13:46 Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að fela eigi utanaðkomandi aðila að gera heildarúttekt á bragganum við Nauthólsveg og að falla skuli frá því að láta innri endurskoðun Reykjavíkurborgar annast úttektina, þar sem hún sé önnum kafin við úttekt á Orkuveitunni. Meira »

Telur að lögbannskröfu verði hafnað

13:43 „Ég tel ljóst að henni verði hafnað,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tekna.is, við fyrirspurn mbl.is vegna lögbannskröfu á hendur vefsíðunni tekjur.is. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sagði að ákvörðun um lögbann yrði ekki tekin í dag. Meira »

Óboðinn gestur hreiðraði um sig í sófa

13:32 Óboðinn ölvaður gestur heimsótti heimili í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gærkvöld og hreiðraði um sig í sófa í stofunni. Húsráðandi var á efri hæð að horfa á sjónvarp þegar hann heyrði umgang á neðri hæðinni. Meira »

Léleg fjármálastjórn aðeins hluti vandans

13:23 Léleg fjármálastjórn Félagsbústaða er aðeins eitt merkið um vondan rekstur og þörf er á róttækum aðgerðum eigi að byggja upp traust milli leigjenda félagslegt húsnæðis í Reykjavík og borgarinnar og stofnana hennar. Meira »

Kröfurnar rúmir 16 milljarðar

13:21 Kröfur í þrotabú danska hluta flugrekstrar Primera Air nema 16,4 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt frétt danska miðilsins Jyske Vestkysten. Kröfuhafar eru þegar orðnir um 500 talsins. Meira »

Ekki tækt að fara eftir tillögu Gildis

13:14 Stjórn HB Granda segir það ekki tækt að fara eftir tillögu Gildis lífeyrissjóðs, þess efnis að hluthafafundur félagsins tilnefni þrjá fulltrúa ótengda Útgerðarfélagi Reykjavíkur, til að annast verklýsingu og samningsgerð við Kviku banka um athugun bankans á kaupum HB Granda á útgerðinni Ögurvík. Meira »

„Var fyrst og fremst nörd“

12:55 Athafnarmaðurinn Paul Allen var flókin persóna sem hafði mörg áhugamál, allt frá gítarleik yfir í tækniþróun og rannsóknir á hafsbotni og fornminjum. Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og vinur Allen ræddi við mbl.is um rannsóknarferðir þeirra víða um heim og hvernig mann Allen hafði að geyma. Meira »

Saka formann framkvæmdaráðs Pírata um trúnaðarbrest

12:51 Sindri Viborg, sem var kjörinn formaður framkvæmdaráðs Pírata á aðalfundi flokksins fyrir rúmum tveimur vikum, hefur sagt sig úr ráðinu sem og flokknum. Ásamt honum hafa þrír af tíu fulltrúum framkvæmdaráðsins sagt af sér. Eftir sitja sex fulltrúar ásamt áheyrnarfulltrúa. Meira »
íbúð með sérinngang eða sérbýli óskast.
Vönduð vel menntuð hjón með tvær dætur óska eftir húsnæði í Reykjavik eða Kóp. S...
Sumarbústaðalóðir til sölu í Vaðnesi
Til sölu fallegar sumarhúsalóðir með aðgangi að heitu og köldu vatni í vinsælu s...
Sumarhús - gestahús - breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...