Biðst afsökunar á mistökunum

Árni Johnsen.

Árni Johnsen.
mbl.is

Árni Johnsen alþingismaður segist hafa íhugað að segja af sér þingmennsku vegna mistaka sem honum hafi orðið á í tengslum við störf sín í byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Hann segist hins vegar ekki hafa séð ástæðu til að gera það. "Ég treysti á mitt fólk þegar pusar á bátinn," sagði Árni í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann vildi að öðru leyti ekki bregðast við orðum forsætisráðherra í gær þegar eftir því var leitað.

Árni viðurkenndi í gær að hann hefði gert mistök við kaup á steinum af BM-Vallá og ekki greint fjölmiðlum rétt frá fyrst þegar málið kom upp. Hann sagðist hins vegar vera að íhuga viðbrögð við því að fjórir menn hefðu í fjölmiðlum í gær kallað sig þjóf.

"Ég pantaði steina hjá BM-Vallá sem áttu að fara í viðgerð á stétt við austurhlið Þjóðleikhússins. Það breyttust hins vegar forsendur á framkvæmdatímanum nokkuð óvænt og ég tók þá til geymslu heima hjá mér. Þá stóðst ég ekki mátið og fór að hlaða úr þeim sem stóð alls ekki til. Ég ætlaði síðan að panta nýja sendingu til að koma henni niður að Þjóðleikhúsinu en það var ég ekki búinn að gera þegar fjaðrafokið upphófst um þessa hluti. Ég ákvað svo, frekar en að panta nýja steina hjá BM-Vallá, að borga reikninginn.

Skynsamlegt að hætta í nefndinni

Mér sýnist skynsamlegast, til að hafa frið um Þjóðleikhúsið, að ég fari út úr byggingarnefndinni. Ég tel að það sé kominn tími á mig. Það þýðir ekkert að hafa þessi mál í ófriði. Síðan geta menn skoðað í rólegheitum þessa litlu viðgerð sem ég ætlaði að fara að láta vinna."

Tengdist þessi vinna við stéttina fyrirhugaðri byggingu leikmunageymslu fyrir Þjóðleikhúsið sem skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurborgar frestaði 2. maí sl. að taka ákvörðun um hvort leyft yrði að fara út í?

"Nei. Þessar framkvæmdir tengdust ekki en fyrirhugað var að þetta fylgdist að."

Þurftu endurbætur á stéttinni að fara fyrir byggingarnefndina?

"Nei. Það var einfaldlega von á verkflokki og það var áformað að gera þetta á sama tíma.

Ég vil segja almennt um þessa steina að auðvitað var ekki rétt staðið að málum af minni hálfu. Ég verð að biðjast afsökunar og fyrirgefningar á þessu. Maður er dálítið eins og heimaríkur hundur eftir langt starf í þessari nefnd en það stóð að sjálfsögðu aldrei annað til en að fá aðra steina í staðinn fyrir þá sem fóru heim til mín."

Sagði rangt frá málsatvikum í upphafi

Óttast þú ekki að þetta mál hafi rýrt það traust sem kjósendur þínir og samstarfsmenn í stjórnmálum hafa borið til þín?

"Það er búið að gera mjög mikið úr þessu máli. Ég féll í þá gryfju að svara út í hött þegar ég var spurður um steinana. Ég sagði ekki alveg satt frá, a.m.k. ekki allan sannleikann og gaf í skyn ákveðna hluti; sneri nánast út úr. Það stóð hins vegar ekki lengi. Ég hef borgað þessa steina og það hefur enginn skaðast neitt af því. Ég vona að mér fyrirgefist svona skammhlaup."

Í Morgunblaðinu í dag lýsir forstjóri BYKO samskiptum Árna við fyrirtækið með nokkuð öðrum hætti en fram hefur komið áður í fjölmiðlum. Hann fullyrðir að Árni hafi í maí tekið út vörur í nafni Þjóðleikhússins fyrir um 400 þúsund og greiðslan hafi verið sett inn á biðreikning þar sem Árni hafi sagt að nauðsynleg fjárveiting væri ekki til staðar.

Hafnar skýringum forstjóra Byko

Árni sagði að þarna færi forstjórinn ekki rétt með staðreyndir. Það stæði sem hann hefði áður sagt að úttektin hefði verið merkt Þjóðleikhúsinu fyrir mistök. Hann sagðist hafa leiðrétt það þegar hann uppgötvaði þessi mistök. Byggingavörurnar hefðu aldrei átt að fara inn á reikning Þjóðleikhússins og hefðu aldrei gert það. Misskilningurinn hefði orðið til í samskiptum hans við starfsmenn BYKO vegna þess að hann hefði í tengslum við þessi kaup á byggingarefni fyrir sig rætt um möguleg kaup á byggingarefni fyrir Þjóðleikhúsið síðar í sumar.

Árni sagði að sér kæmi algjörlega á óvart að heyra að 400 þúsund króna úttekt hefði í rúman mánuð legið á biðreikningi hjá BYKO merkt Þjóðleikhúsinu. Þetta hlyti að vera hluti af þessum misskilningi sem orðið hefði til um þetta mál. Jón Helgi hefði tvisvar staðfest í DV að þetta mál hefði orðið til fyrir misskilning.

Óttast þú ekki, eftir að þetta steinamál kom upp, að fólk eigi erfitt með að trúa skýringum þínum á BYKO-málinu?

"Nei, það held ég ekki. Þetta eru tvö ólík mál. Ég tók þessa steina út og viðurkenni það, en hitt málið verður til vegna misskilnings í samskiptum starfsfólks BYKO og mín. Þetta byggingarefni átti aldrei að greiðast af Þjóðleikhúsinu."

Nú liggur fyrir að Ríkisendurskoðun ætlar að skoða þessi mál. Höfum við ástæðu til að óttast að það séu fleiri reikningar sem ekki hafi verið rétt færðir?

"Nei, ég hef ekki tekið neitt annað með þessum hætti."

Þú hefur verið prókúruhafi fyrir byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Ert þú prókúruhafi fyrir fleiri nefndir á vegum hins opinbera?

"Nei, það held ég ekki; ekki sem hafa með útdeilingu fjármagns að gera."

Telur þú óheppilegt að þú sem alþingismaður og nefndarmaður í fjárlaganefnd hafir verið í þeirri stöðu að vera formaður í nefnd á vegum framkvæmdavaldsins og stofna þar til útgjalda?

"Mér sýnist miðað við umræðuna í dag að það sé óheppilegt að stjórnmálamaður sé í þessari stöðu. Ég vil nú samt leyfa mér að vitna í orð Svavars Gestssonar, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem tók svo djúpt í árinni við opnun Þjóðleikhússins 1991 að segja að þessi framkvæmd hefði ekki gengið fram nema af því að ég kom að henni. Ég veit ekki annað en að mönnum hafi líkað ágætlega að vinna með mér í þessu þó að ég fari kannski ekki alltaf hefðbundar leiðir," sagði Árni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »