Smáralind sögð yfirbyggður miðbær Íslands

Pálmi Kristinsson framkvæmdastjóri Smáralindar og Geir Haarde fjármálaráðherra skoða vöruúrvalið …
Pálmi Kristinsson framkvæmdastjóri Smáralindar og Geir Haarde fjármálaráðherra skoða vöruúrvalið í Smáralind í morgun. mbl.is/Golli

Pálmi Kristinsson, framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar, kallaði Smáralind yfirbyggðan miðbæ Íslands í ræðu sem hann hélt við formlega opnun verslunarmiðstöðvarinnar í morgun. Pálmi sagði að Smáralind væri albúin að gegna hlutverki sínu og að verslunarmiðstöðin myndi skapa ný viðmið í byggingu húsa á Íslandi, ekki aðeins vegna þess að um væri að ræða stærsta hús landsins heldur einnig vegna þess að Smáralind væri sú bygging sem endurspeglaði það fremsta sem þekktist í arkitektúr, hönnun, hátækni og verkmenningu.

Hann sagði jafnframt að í Smáralind fælist ný hugsun í íslenskri verslun því einnig væri um að ræða menningar- og afþreyingarmiðstöð með fjölbreyttri þjónustu í formi kvikmyndahúsa, ráðstefnumiðstöðvar og barnaskemmtigarðs. Fram kom í máli Pálma að í Vetrargarði Smáralindar yrðu haldnir reglulegir viðburðir listamanna og félagasamtaka sem ættu eftir að koma fólki á óvart. "Frá og með þessum degi verður Smáralind yfirbyggður miðbær Íslands, spegill þjóðarinanr þar sem hún getur komist í snertingu við sjálfa sig." Hann sagði að fyrsti tónnnin hefði þegar verið gefinn með flutningi á Hafmeyjunni, listaverki Nínu Sæmundsson, frá Bandaríkjunum, en verkið er í Sumargarði Smáralindar. Pálmi kvaðst vænta þess að Smáralind myndi efla samkeppni í landinu, lækka vöruverð, auka þjónustu og stuðla að meiri lífsgæðum allra landsmanna. Hann benti einnig á að Smáralind væri ekki aðeins í samkeppni á innlendum vettvangi heldur einnig við útlönd. "Smáralind er verslunarmiðstöð á heimsmælikvarða sem eflir verslun í landinu, bæði á þann hátt að Íslendingar kaupi frekar vörur hér á landi en erlendis og að útlendingar kaupi meira á Íslandi en þeir myndu ella gera. Við höfum því kosið að kalla Smáralind nýjan áfangastað," sagði Pálmi meðal annars í ræðu sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert