Borgarráð samþykkir húsbyggingu við Vesturlandsveg

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að gefa fyrirtækjunum Smáratorgi (BYKO), Smáragarði (Rúmfatalagernum) og Mötu fyrirheit um úthlutun leigulóðar norðan við Vesturlandsveg í nálægð við Korpúlfsstaði og sölu byggingaréttar. Til stendur að byggja þar allt að 50 þúsund fermetra verslunarmiðstöð sem yrði stærsta húsið í Reykjavík og litlu minna en Smáralind. Samkomulag er við fyrirtækin um að reiða 9840 krónur á fermetra í byggingu fyrir byggingarrétt.

Á fundi borgarráðs lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks til að þessu erindi yrði vísað til umsagnar skipulags- og byggingarnefndar, umhverfis- og heilbrigðisnefndar og samgöngunefndar og fengin yrði skrifleg afstaða stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis til málsins, en til stóð að kirkjugarður yrði gerður á þessu svæði. Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans létu hins vegar bóka að deiliskipulag verði unnið í samráði við skipulags- og byggingarnefnd og fari síðan til umsagnar samgöngunefndar og umhverfis- og heilbrigðisnefndar.

Sjálfstæðismenn gagnrýndu málsmeðferð þar sem nýlega hefði verið samþykkt svæðisskipulag og aðalskipulag Reykjavíkur sem gerði ráð fyrir allt annarri landnotkun á svæðinu. Áður en fyrirheit yrði veitt fyrir um lóðarúthlutun væri nauðsynlegt að fyrir lægi breytt aðalskipulag með breyttri landnotkun og frekari upplýsingar um skipulag og starfsemi á þessu 10 hektara svæði.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans sögðu hins vegar fullkomlega eðlilega staðið að fyrirheiti um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis norðan Vesturlandsvegar. Mikilvægt sé að skapa fyrirtækjum ákjósanlegar aðstæður innan borgarmarkanna og sé uppbygging á þessu svæði í anda svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

mbl.is