Niðurstöðu DNA-rannsóknar vegna Stórholtsmálsins að vænta um miðja vikuna

Niðurstöðu úr DNA-rannsókn á lífsýnum vegna hvarfs 33 ára konu frá Indónesíu er að vænta um miðja vikuna, að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns. Þá segir hann allar líkur á því að krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir fyrrverandi sambýlismanni konunnar sem grunaður er um aðild að hvarfi konunnar en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rennur út á miðvikudag.

Konan er enn ófundin en síðast er vitað til ferða hennar aðfaranótt sunnudagsins 4. júlí. Sigurbjörn Víðir segir að enginn annar en maðurinn hafi verið handtekinn en enn sé verið að yfirheyra fólk sem hugsanlega gæti veitt upplýsingar um málið.

Þá stendur vettvangsrannsókn enn en hún er langt komin. Rannsóknin hefur einkum beinst að heimili mannsins við Stórholt í Reykjavík.

DNA-sýnin voru send til Noregs þar sem þau eru til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert