Fjársöfnun gekk vel og Skjár einn væntanlegur til Bolungarvíkur

Bolvíkingar hafa safnað nægu fé fyrir sjónvarpssendi Skjás eins í Bolungarvík en eins og áður hefur verið greint frá þurftu heimamenn að afla 900 þúsund króna eða helmings af kostnaðinum við uppsetningu sendisins í Bolungarvík.

„Við vorum vissir um að okkur tækist ætlunarverkið og á föstudag kom í ljós að okkur hafði tekist að safna nægu fé,“ segir Baldur Smári Einarsson, meðlimur áhugahópsins, sem stóð fyrir söfnuninni. Ekki var þörf á að leita til bæjaryfirvalda vegna fjársöfnunarinnar. „Tvö fyrirtæki, Olís og Sparisjóður Bolungarvíkur, styrktu okkur myndarlega en eins og við sögðum í upphafi þá var þetta framtak einstaklinga og við ætluðum ekki að leita til bæjarins,“ segir Baldur Smári.

Forsvarsmenn Skjás eins hafa áður gefið upp að það taki 3-6 vikur að fá sjónvarpssendinn til landsins og setja hann upp. Bolvíkingar ættu því, ef allt gengur að óskum, að geta horft á sýningar frá ensku deildarkeppninni í knattspyrnu í byrjun október.

mbl.is