hér.">

Hrossin brennd að Sjónarhóli

Brunavarnir Suðurnesja önnuðust brennslu hrossanna.
Brunavarnir Suðurnesja önnuðust brennslu hrossanna. mbl.is/Júlíus

Nú er verið að brenna hrossin, sem sýktust af miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Hræjum hrossanna fjögurra var komið fyrir á bálkesti á sýkta svæðinu í morgun og kveikt í honum um hádegi. Gert er ráð fyrir að eldur logi í kestinum fram á kvöld en tveir menn eru á vakt við hann á meðan eldur er í honum. Sjá má myndskeið af brunanum með því að smella hér.

Mikill viðbúnaður er vegna brunans og voru þeir sem unnu að undirbúningi hans með reykköfunartæki og klæddir sérstökum eiturefnagöllum, á meðan þeir meðhöndluðu hrossin, sem síðan voru settir á bálið. Þá verður askan fjarlægð eftir að glæðurnar eru kulnaðar og henni komið fyrir á þar til gerðum stað.

Rannsókn mun síðan fara fram á jarðvegi á jörðinni og vatni úr tjörninni, sem þar er, til að leita upptaka miltisbrandsmengunarinnar.

Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965. Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn. Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.

mbl.is