Aðeins eftir að hafa uppi á einum Íslendingi

Níu af þeim 10 Íslendingum sem óttast var um, eftir að miklar flóðbylgjur skullu á Suður-Asíu á annan dag jóla, hafa látið vita af sér. Fólkið reyndist heilt á húfi. Um var að ræða þriggja manna fjölskyldu sem stödd er í Taílandi, fimm manna fjölskyldu á Balí og einstakling sem staddur er í Taílandi.

Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins hefur enn ekkert heyrst frá einum Íslendingi sem vitað er að var á Taílandi þegar hamfarirnar áttu sér stað. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að ætla annað en að viðkomandi sé heill á húfi.

Að sögn Péturs Ásgeirssonar, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu, höfðu báðar fjölskyldurnar verið á svæði þar sem hvorki var síma- né tölvusamband. Fjölskyldan á Taílandi hringdi heim í fyrrinótt og fjölskyldan á Balí sendi tölvupóst í gærmorgun, en í boðum, sem frá fjölskyldunum bárust, kom fram að ekkert amaði að þeim og að allir væru heilir á húfi. Síðdegis í gær bárust utanríkisráðuneytinu síðan upplýsingar um að annar einstaklinganna sem óttast var um væri heill á húfi, en hann hringdi heim í gær.

Aðspurður segir Pétur ráðuneytið ekki hafa haft ástæðu til að ætla annað en að viðkomandi væri heill á húfi, svo og hinn einstaklingurinn sem enn hefur ekki látið vita af sér. Pétur segir ráðuneytið hafa fengið heimild hjá Persónuvernd og fjölskyldum fólksins til að athuga hvort kreditkort þeirra hafi verið notuð síðustu daga. Aðeins var kannað hvort kortið hefði verið notað og hvort það hefði þá verið notað í verslun eða hraðbanka.

Pétur segir vitað nokkurn veginn hvar sá Íslendingur sem ekki hefur enn látið vita af sér sé niðurkominn, en hann mun vera í þorpi miðja vegu milli Pattaya og Bangkok, en vitað er að hann hafi notað kreditkortið sitt á þessum stað nýlega. Að sögn Péturs hafa íslenskir ræðismenn á staðnum verið beðnir um að svipast um eftir manninum og spyrjast fyrir um hann á hótelum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert