Starfsmenn Íslandsbanka í Lundúnum heilir á húfi

Strætisvagn sem sprengdur var upp á Eversholt Street í Lundúnum …
Strætisvagn sem sprengdur var upp á Eversholt Street í Lundúnum í dag. AP

Pétur Einarsson, forstöðumaður Íslandsbanka í Lundúnum, segir að starfsmenn bankans í borginni, sem eru 15 talsins, séu allir óhultir eftir hryðjuverkaárásir sem gerðar voru í borginni í dag. Aðsetur Íslandsbanka í Lundúnum er í City-hverfinu, nokkur hundruð metra frá lestarstöðinni Liverpool Street Station.

„Þegar þessir atburðir áttu sér stað voru flestir á leiðinni til vinnu. Þeir urðu að yfirgefa lestarnar og skipta um lest og reyna að komast til vinnu. Margir gengu lengri vegalengdir til þess að komast í vinnuna í morgun,“ segir Pétur.

„Allir eru heilir á húfi og allt í lagi með alla,“ segir Pétur. Hann segir að þegar fólk kom til vinnu hafi menn fylgst með fréttum af atburðunum í sjónvarpi. „Um tvöleytið að breskum tíma ákváðum við að yfirgefa skrifstofuna og byrja að koma okkur heimleiðis. Flestir ætluðu að reyna að ganga heim,“ segir Pétur. „Það er auðvitað hræðilegt að horfa upp á þetta og lenda í þessu en við ætlum að mæta aftur til vinnu á morgun og takast á við verkefnin og reyna að koma hlutunum í eðlilegt horf,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert