Sjálfstæðisflokkur með hreinan meirihluta í Reykjavík samkvæmt könnun

Samkvæmt könnun, sem Fréttablaðið birtir í dag, fengi Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta ef kosið væri til borgarstjórnar Reykjavíkur nú. Fylgi flokksins mælist 52,7% í Reykjavík í könnuninni og fengi hann 9 borgarfulltrúa af 15 miðað við þessa niðurstöðu.

Fylgi Samfylkingarinnar er 30,8% samkvæmt könnuninni og fengi flokkurinn fimm borgarfulltrúa. Vinstrihreyfingin-grænt framboð mælist með 8% og einn borgarfulltrúa. 5,4% sögðust myndu kjósa Framsóknarflokk og 2,8% Frjálslynda flokkinn en hvorugur þessara flokka fengi borgarfulltrúa samkvæmt könnuninni.

mbl.is