Mikil tækifæri til uppbyggingar á varnarsvæðinu að mati forsætisráðherra

Varnarstöð Bandaríkjamanna í Keflavík.
Varnarstöð Bandaríkjamanna í Keflavík. mbl.is/RAX

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir mikil tækifæri liggja til atvinnu og uppbyggingar á fyrrum varnarsvæði Bandaríkjahers í Keflavík. Við brotthvarf Varnarliðsins verði að afmarka betur stjórnsýslu á svæðinu. Ótal hugmyndir hafi kviknað hvað varðar framtíð svæðisins og notkun þess, hugmyndir hafi m.a. heyrst um að hafa þarna háskólasvæði og opinberir aðilar og einkafyrirtæki myndu áreiðanlega sjá sér hag í því að nýta sér svæðið. Hámarka yrði þann hag sem hægt sé að hafa af þessu brotthvarfi hersins.

Hvað varðar ratsjáreftirlit verði að tryggja að það verði ekki verra en það hefur verið til þessa. Geir telur ríkisstjórn Íslands hafa náð sínum markmiðum í viðræðunum við Bandaríkjamenn hvað varðar brotthvarf Varnarliðsins og þakkar íslensku samninganefndinni sérstaklega fyrir hennar störf.

Geir sagði að ríkisstjórnin hefði gjarnan viljað að Bandaríkjamenn tækju meiri þátt í niðurrifi herstöðvarinnar og hreinsun.

Frá því 15. mars hefði legið ljóst fyrir að loftvarnir yrðu ekki samar og hefðu áður verið en þær yrðu eins og þörf krefði. Ekki væri þó kveðið nákvæmlega um hvernig þær yrðu. Ef hætta steðjaði að landinu yrði haft samband við Bandaríkjastjórn í gegnum hernaðarfulltrúa hér á landi.

mbl.is