SMÁÍS segir að ábyrgðarmaður torrent.is megi búast við opinberri rannsókn

Bit Torrent virkar svona.
Bit Torrent virkar svona.

Í síðustu viku sendu samtök höfundarrétthafa hérlendis (Smáís, SÍK, Samtónn) ábyrgðarmanni vefsvæðisins torrent.is áskorun um að loka síðunni á þeirri forsendu að „á henni væri hvatt til og stuðlað að brotum á höfundarrétti". Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri SMÁÍS, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, segir að verði ekki orðið við kröfu samtakanna áskilji þau sér rétt til þess að grípa til aðgerða. Krafist verði þá lögbanns á rekstur síðunnar, opinberrar rannsóknar og höfðun einkamáls.

Tinna bendir á að fyrr í mánuðinum hafi fallið dómur í Virginíuríki í Bandaríkjunum yfir manni á þrítugsaldri og hann dæmdur til 10 mánaða fangelsisvistar, þar af fimm mánaða eftirlits, fyrir þátt sinn í rekstri BitTorrent skráaskiptavefsíðu (P2P) og brot á höfundarréttarlögum. Tinna segir það kaldhæðnislegt að stæra sig af heimsmeti í lögbrotum, sem ólögleg dreifing og niðurhal á höfundarréttarvörðu efni sem og hvatning til slíkrar iðju sé.

Á vefsíðunni torrent.is segir ábyrgðarmaður hennar, sem kallar sig Svavar Kjarrval: „Eins og hefur komið fram fyrir stuttu var sent bréf frá samtökunum SMÁÍS, Samtóni og Framleiðendafélagsins SÍK og krafist þess að loka eigi vefsvæðinu torrent.is vegna meintra brota á höfundalögum. Eftir að bréfið hefur verið skoðað og réttarstaða þeirra sem standa að Istorrent, þá hefur verið ákveðið að halda áfram með vefinn í óbreyttri mynd þangað til annað hefur verið ákveðið. Istorrent vill tilkynna að þeir rétthafar sem telja að vísað sé til efnis í þeirra eigu, þá væri eðlilegur farvegur að birta Istorrent tilkynningu um það í samræmi við 15. grein laga 30/2002 og mun vera brugðist við slíkum tilkynningum eins fljótt og auðið er."

Fréttavefur Morgunblaðsins gerði s.l. vetur fréttaskýringu um þetta efni og kom þar í ljós að deilan er nokkuð flókin þar sem löglegt er að hala niður efni en ekki að dreifa því. Skráaskipti snúast um að deila skrám, eins og nafnið gefur til kynna, en hægt að stöðva slík skipti um leið og notandi er kominn með skrána í heilu lagi í tölvuna sína. Lesa má nánar um þessa deilu með því að smella á tengilinn.

Deilan um skráaskiptin

mbl.is