Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir 15% af yfirborði Íslands

Vatnajökulsþjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu.
Vatnajökulsþjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu. mbl.is/RAX

Fyrirhugaður Vatnajökulsþjóðgarður mun þekja um 15.000 km² sem samsvarar um 15% af yfirborði Íslands og ná til lands sem varðar stjórnsýslu átta sveitarfélaga. Þjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu og mun hafa mikla sérstöðu í náttúrufarslegu tilliti í heiminum, samkvæmt upplýsingum umhverfisráðuneytisins.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, að stjórnarfrumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð verði lagt fram en samkvæmt frumvarpinu mun þjóðgarðurinn í fyrstu ná til alls jökulsins og helstu áhrifasvæða hans, þ.m.t. Jökulsá á Fjöllum. Nákvæm mörk þjóðgarðsins munu síðan ráðast endanlega af samningum við landeigendur og handhafa nytjaréttar.

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er þess vænst að hægt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð seint á árinu 2007 eða snemma árs 2008. Þá er lagt til í frumvarpinu að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs taki mið af alþjóðlegum viðmiðum um þjóðgarða og friðlýst svæði og að verndarstig einstakra svæða þjóðgarðsins miðist við að hefðbundnar nytjar.

Gert er ráð fyrir að áætluð uppbyggingin muni kosta 1150 milljónir króna og er áætlað að sú uppbygging eigi sér stað á fyrstu fimm árum eftir stofnun þjóðgarðsins.

Töluverður hluti af því landssvæði sem áhugi er fyrir aðfalli innan þjóðgarðsins, vegna náttúrufars og tengingar við Vatnajökul, eru í einkaeign og verður hann ekki hluti þjóðgarðsins nema til komi samkomulag við landeigendur. Fram hafa farið viðræður við landeigendur þess lands sem áhugavert er talið að verði hluti þjóðgarðsins og verður þeim viðræðum haldið áfram með það fyrir augum að ljúka samningum jafnskjótt og lög um Vatnajökulsþjóðgarð verða að veruleika.

Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur hefur lagt mat á áhrif þjóðgarðsins og þeirra tillagna sem fyrir liggja um uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann telur að þjóðgarðurinn geti fjölgað ferðamönnum til Íslands um 5-7% árið 2012, umfram það sem annars hefði verið, eða um 30-42 þúsund manns og gistinóttum þeirra um 300-400 þúsund. Miðað við það er áætlað að þjóðgarðurinn muni skila 3-4 milljörðum króna í viðbótar gjaldeyristekjur árið 2012 (á núvirði), 70% af því vegna útgjalda ferðamanna innanlands en 30% vegna fargjalda. Árið 2020 telur Rögnvaldur að Vatnajökulsþjóðgarður muni geta skilað a.m.k. 11 milljörðum í auknum gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum. Líkur eru taldar á að tilkoma Vatnajökulsþjóðgarðs muni auka atvinnu- og þjónustutekjur á nærsvæðum þjóðgarðsins um 1,5 milljarða króna á núvirði á árinu 2012.

Ætla má að árið 2005 hafi um 200 þúsund innlendir og erlendir ferðamenn komið á svæðið innan væntanlegra marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Flestir komu í Skaftafell og að Jökulsárlóni en síðan að Dettifossi og Ásbyrgi.

mbl.is