Kartöflumús í Bónus?

Miklar vangaveltur hafa verið um það á bloggsíðum landsins í dag, hvort mýs hafi náðst á mynd, sem tekin var í Bónus í Holtagörðum þar sem fréttamaður Stöðvar 2 var að gera verðkönnun. Myndin var sýnd í þættinum Íslandi í dag í gærkvöldi og virðist sem mýs skjótist eftir gólfinu. En Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segist ekki sjá betur en að þarna hafi tvær kartöflur skoppað niður á gólf.

„Ég sá fréttina í gær en ég sá engar mýs. Ég sá þarna tvær kartöflur skjótast hjá. Þetta er kannski í mesta lagi kartöflumús," sagði Guðmundur við Morgunblaðið.

Hann sagði að enginn músgangur væri í Bónus í Holtagörðum þótt aldrei væri hægt að útiloka að mýs kæmust inn í húsið, fremur en í önnur hús. Viðurkenndur aðili hefði umsjón með meindýravörnum líkt og stjórnvöld gerðu kröfu um.

Guðmundur sagði að sér hefði verið sagt að nánar yrði fjallað um þetta á Stöð 2 í kvöld og líklega væri best að bíða eftir að fréttin birtist aftur þar, hann hefði engin tæki eða tól til að stækka myndina upp.

Guðmundur bætti við að það væri fyrir neðan alllar hellur ef athyglin beindist öll að því að rýna í hvort mýs eða kartöflur hefðu skotist yfir gólfið en ekki að þeirri niðurstöðu verðkönnunarinnar, sem sagt var frá á Stöð 2 í gærkvöldi, að þurrvaran hefði verið ódýrari í Bónus en í ódýrustu lágvöruverðbúðinni í Danmörku sem væri 20 sinnum stærra markaðssvæði. Þetta væri þó lýsandi fyrir umræðuna um matvörumarkaðinn á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina