Samráð í umhverfismálum vekur athygli

Á ráðstefnunni í Sevilla var m.a. fjallað um þáttöku íbúa ...
Á ráðstefnunni í Sevilla var m.a. fjallað um þáttöku íbúa Reykjavíkur umhverfismálum. mbl.is/Sverrir

Víðtækt samráð Reykjavíkurborgar við hagsmunaaðila og borgarbúa um áherslur í umhverfismálum vakti athygli á ráðstefnu um sjálfbæra þróun borgarsamfélaga sem haldin er í Sevilla á Spáni, að því er segir í fréttatilkynningu frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

„Það er mikilvægt að borgarbúar eigi hlutdeild í hverju skrefi sem stígið er í umhverfismálum í borginni,“ segir Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðsstýra Umhverfissviðs, sem flutti erindi á ráðstefnunni.

Reykjavík í mótun er framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í umhverfismálum þar sem framtíðarsýnin er að ásýnd og ímynd Reykjavíkur endurspegli skapandi hugsun íbúa þar sem mannlíf og umhverfi eru í fyrirrúmi og gott er að búa. „Við búum við mikla hagsæld og því hefur Reykjavík tækifæri til að vera öðrum góð fyrirmynd,“ segir Ellý Katrín og að það sé einnig skylda að deilda með öðrum því sem vel hefur tekist til.

Ellý Katrín flutti erindi á ráðstefnunni í Sevilla og fjallaði um þátttöku íbúa í umhverfismálum og komust færri að en vildu til að hlusta. Hún sagði að 100 hagsmunaaðilar hafi tekið þátt í samráðinu. Einnig var blásið til íbúasamráðs á netinu. Borgarbúar sendu ábendingar og skrifuðu þær inn í Hallveigarbrunnur.is og sendu til borgaryfirvalda, þá gátu þeir talað inn á talhólf og sent bréf í pósti. Yfir 500 gagnlegar ábendingar bárust með þessu móti og koma til framkvæmda næsta áratuginn. „Við getum einnig miðlað af okkar reynslu til nágrannaþjóðanna á norðurslóðum. Við búum á viðkvæmum stöðum á Norðurskautsvæðinu og berum hnattræna ábyrgð gagnvart því,“ segir Ellý Katrín.

Lykilþættir Reykjavíkur í mótun er eftirfarandi: Í Reykjavík sé hægt að ferðast á auðveldan og öruggan hátt og án þess að menga umhverfið. Í Reykjavík taki starfsemi borgarinnar mið af samþættingu umhverfis, heilbrigðis og velferð íbúa. Reykjavík verði til fyrirmyndar á öllum sviðum sem tengjast gæðum umhverfisins. Reykjavík standi vörð um náttúrusvæði í borginni og stuðli að góðu aðgengi að fjölbreyttum útivistarsvæðum. Reykjavík verði til fyrirmyndar í því að draga úr myndun úrgangs og stuðla enn frekar að endurvinnslu og endurnýtingu sorps. Skipulag og hönnun mannvirkja endurspegli skapandi hugsun og virðingu fyrir íslenskum sérkennum og sögu. Reykjavíkurborg og fyrirtæki í borginni verði fyrirmynd í notkun umhverfisstjórnunartækja í alþjóðlegum samanburði

mbl.is