Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans

Jónína Bartmarz.
Jónína Bartmarz.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra segir að þrír nefndarmenn í allsherjarnefnd Alþingis hafi látið þess getið að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og suður-amerískrar konu sem nefndin samþykkti að veita íslenskan ríkisborgararétt þrátt fyrir að hún hefði aðeins dvalið á landinu í 15 mánuði á dvalarleyfi námsmanna.

Í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld var sagt að aðstæður konunnar hefðu verið allt aðrar en hinna 17 sem allsherjarnefnd þingsins samþykkti að veita íslenskt ríkisfang á sama tíma. Fram kom í Kastljósi, að umrædd kona sé skráð með lögheimili á heimili Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, og sé kærasta sonar Jónínu.

Þrír nefndarmenn í allsherjarnefnd fóru yfir umsóknirnar en Kastljós sagði, að þeir hefðu ekki viljað tjá sig um málið eða greina frá því hvers vegna ákveðið var að veita konunni ríkisfang. Haft var eftir Jónínu, að hún hefði ekki komið með neinum hætti að þeirri ákvörðun, að veita konunni ríkisborgararétt.

Jónína sagði í samtali við mbl.is í kvöld að sér væri kunnugt um að nefndarmennirnir þrír sem fóru yfir umsóknirnar, hafi látið þess getið að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu við þennan tiltekna umsækjanda. Þetta hafi aftur á móti ekki komið fram í Kastljósi.

Kvaðst Jónína telja að í Kastljósi hafi verið hallað réttu máli og reynt að gera það tortryggilegt með því að taka fram að Útlendingastofnun hefði sérstaklega lagst gegn veitingu ríkisborgararéttar í þessu máli, en svo hefði ekki verið, því að stofnunin geti ekki mælt með umsækjendum sem ekki uppfylli lagaskilyrði.

Ennfremur sagði Jónína það rangt að aðstæður umræddrar konu hafi verið allt aðrar en hinna umsækjendanna sem allsherjarnefnd samþykkti á sama tíma að veita ríkisborgararétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina