Hættir í borgarstjórn

Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir mbl.is/RAX

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, hefur ákveðið að hætta í borgarstjórn eftir þrettán ára setu. Hún mun tilkynna ákvörðun sína á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn og láta af störfum formlega um næstu mánaðamót. Sem kunnugt er var Steinunn Valdís kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í vor.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það fari ekki saman að sitja í borgarstjórn og á Alþingi. Menn hafa gert það gegnum tíðina en í prinsippinu er ég á móti því. Þetta er hvort tveggja fullt starf og maður fær borgað fyrir það sem slíkt. Þannig að maður verður að mínu mati að sinna því sem slíku,“ segir Steinunn Valdís.

Hún segir þetta heppilegan tíma til að víkja úr borgarstjórn. „Eftir að hafa verið í tólf ár í meirihluta, þar af í átján mánuði sem borgarstjóri, er það óneitanlega svolítið önnur staða að vera í minnihluta. Ég er heldur ekki oddviti Samfylkingarinnar í borginni, heldur Dagur B. Eggertsson. Þess vegna ákvað ég að taka slaginn í prófkjörinu fyrir alþingiskosningarnar og mun nú einbeita mér að verkefnum mínum á þeim vettvangi.“

Steinunn Valdís kveðst í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins alla tíð hafa verið kvennapólitísk og því þykir henni við hæfi að tilkynna um brotthvarf sitt á kvenréttindadaginn. Hún gerir reyndar gott betur.

„Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi í aðgerðum gegn kynbundnum launamun. Það er hins vegar nokkuð um liðið síðan síðasta launakönnun var gerð og mitt síðasta verk í borgarstjórn verður að flytja tillögu um að farið verði í nýja launaathugun. Á grundvelli þeirrar könnunar verði gripið til tímasettra aðgerða ef í ljós kemur munur á launum karla og kvenna sem starfa hjá Reykjavíkurborg.“

Sigrún Elsa Smáradóttir mun taka sæti Steinunnar í borgarstjórn en Oddný Sturludóttir, fimmti maður á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra, hefur að undanförnu leyst Stefán Jón Hafstein af hólmi, þar sem hann er í leyfi erlendis.

„Þetta eru ungar og efnilegar konur sem nú fá tækifæri til að spreyta sig án þess að ég sé andandi ofan í hálsmálið á þeim,“ segir Steinunn í léttum tón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »