Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ungan erlendan karlmann af ákæru fyrir nauðgun en maðurinn var ákærður fyrir að hafa nauðgað ungri konu inni á salerni hótels í Reykjavík í mars í vetur. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan en hann hélt því fram að kynferðismök hefðu farið fram með vilja stúlkunnar.

Samkvæmt ákærunni þröngvaði maðurinn stúlkunni til samræðis og annarra kynferðismaka inni á salerni í kjallara Hótels Sögu með því að ýta henni inn á salernisbás og halda henni þar meðan hann kom fram vilja sínum. Fram kemur í dómnum, að þegar konan var spurð hvort hún hefði veitt mótspyrnu segist hún hafa verið alveg frosin og í sjokki og ekki veitt mótspyrnu fyrr en hún fann nístandi sársauka.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi komið vel fyrir undir málsmeðferðinni en á framburði hans hafi þó reynst vera veilur. Á hinn bóginn hafi konan enga tilraun gert til þess að gera hlut sinn betri í meðferð málsins og álíti dómurinn hana almennt einkar trúverðuga. Þó virðist nokkrar gloppur vera í frásögn hennar vegna ölvunar, að ætla megi.

Í niðurstöðu dómsins segir, að fyrir liggi að þau tvö urðu samferða niður að snyrtingunni og staðhæfing mannsins um að vel hafi farið á með þeim á leiðinni þangað þyki ekki vera ótrúleg í ljósi orðaskipta þeirra þar inni. Þá verði ekki heldur litið fram hjá því að stúlkan sagðist ekki muna atvikin í smáatriðum vegna ölvunar, að hún hefur sagt að maðurinn kunni að hafa haldið utan um hana á leiðinni og einnig að hann kunni að hafa misskilið þegar hún svaraði honum á ensku eftir að hann hafði boðist til þess að fylgja henni niður. Verður því ekki séð að maðurinn hafi, fram til þess að þau fóru inn í salernisklefann, haft ástæðu til að halda að hún væri honum andhverf.

Dómurinn segir að ótvírætt hafi komið fram hjá stúlkunni í málinu frá upphafi, að allt sem gerðist í salernisklefanum hafi verið gegn vilja hennar. Læknir á neyðarmóttöku hafi borið að stúlkan var í miklu uppnámi yfir því sem gerst hafði þegar hún kom á þangað, konan var með áverka og við sálfræðirannsókn hafi greinst merki um áfallastreituröskun. Þetta allt þyki styðja þann framburð hennar, að hún hafi ekki viljað eiga samræði eða önnur kynferðismök við manninn.

Hins vegar segir dómurinn að ef byggt sé á frásögn stúlkunnar af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra tveggja inni á snyrtingunni verði að líta svo á, að það að maðurinn ýtti konunni inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hafi verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægi þetta eitt til þess að maðurinn verði sýknaður af ákærunni.

Margrét Gunnlaugsdóttir, réttargæslumaður stúlkunnar, segir fordæmi fyrir því að nóg hafi þótt að loka einhvern inni til að það flokkist undir ofbeldi. Það að stúlkan mótmæli ekki – vegna hræðslu – ætti ekki að leiða til sýknu. Hún segist afar ósátt við dóminn.

Héraðsdómur var fjölskipaður, skipaður þeim Pétri Guðgeirssyni, Ásgeiri Magnússyni og Sigríði Ólafsdóttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina