Soffíu bjargað

Soffía er fjallabíll með langa sögu og til eru þeir sem segja að hún hafi líka sál. Hún var smíðuð í Reykholti í Borgarfirði í bílasmiðju Guðmundar Kjerulf 1963. Hún er merkisgripur sem í felast mikil menningarverðmæti en undanfarin fimm ár hefur bíllinn, verið að drabbast niður á geymslusvæði í Straumsvík í Hafnarfirði.

Síðast liðinn vetur ræddi mbl.is við annan eiganda og einn af smiðum Soffíu, Guðna Sigurjónsson og birti við hann viðtal um sögu bílsins.

Í kjölfar viðtalsins fóru hjólin að snúast og áhugasamir menn fóru að vinna að því að koma Soffíu í húsaskjól með það fyrir augum að gera hana upp og finna henni verðugan stað þar sem almenningur gæti skoðað gripinn.

Hún var flutt úr Straumsvík og þegar til kom að leysa hana út og greiða langan bakreikning fyrir leiguna á geymsluplássinu voru þau gjöld öll felld niður af miklum höfðingsskap.

Fyrirtækið Alefli sá um flutninginn og gaf sömuleiðis alla vinnu og kostnað við hann. Soffía hefur nú fengið nýjan dvalarstað hjá Jóni Friðriki Jónssyni á bænum Hvítárbakka skammt frá fæðingarstað sínum.

Framtíð hennar er óviss, verið er að leita að fjármagni til að gera hana upp en fróðir menn segja að ekki þurfi ýkja háa upphæð, því Soffía mun vera í ótrúlega góðu ástandi miðað við aldur og fyrri störf.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja hönd á plóginn geta sett sig í samband við Guðna Sigurjónsson bílasmið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert