Gangnaforingi á mótorhjóli braut ekki gegn náttúruverndarlögum

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 80 þúsund króna sekt fyrir að aka óskráðu vélhjóli við að smala fé. Taldist það brot gegn umferðarlögum. Maðurinn var hins vegar sýknaður af ákæru fyrir að brjóta gegn náttúruverndarlögum fyrir að aka utan vega.

Lögreglan hafði afskipti af manninum í ágúst í fyrra þar sem hann var á torfæruhjóli utan vega og merktra slóða á Mývatnsöræfum. Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi verið í hlutverki gangnaforingja. Voru maðurinn og lögreglumenn sammála um, að hann hefði ekið hjólinu á að giska 70 metra út fyrir þjóðveginn.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa farið á hjólinu víðs vegar um svæði í austri kringum Glæður og Króksmel sunnan þjóðvegarins og norður að Jökulsá á Fjöllum kringum Litla svein og til vesturs beggja vegna þjóðvegarins, uns lögregla hafði tal af honum á þjóðveginum við Námaskarð.

Í dómnum segir, að maðurinn hafi borið, að hafa notað hjólið í göngunum en ekki brúkað það eitt til að bera sig um. Sú víðátta sem lýst sér í ákæru, sé allt gangnasvæðið og væri mikið afrek af einum manni að smala það allt, enda ætlað til þess níu mönnum. Sem gangnaforingi hafi hann ekki haft ákveðið svæði til að smala sjálfur en stýrt verkinu og samræmt athafnir gangna­manna, auk þess sem hann hafi smalað þar sem liðsauka þurfti hverju sinni. Maðurinn sagðist hafa farið töluvert um en ekki ekið á hjólinu utan vega eða merktra slóða nema þann 70 metra spöl.

Dómarinn segir, að ekki hafi verið hnekkt þeirri staðhæfingu gangnaforingjans, að hann hafi engum spjöllum valdið á landi með notkun vélhjólsins og í því felist, að hann hefur virt skilyrði lagaákvæða um að hafa sérstaka aðgát við aksturinn. Var aksturinn því talinn vera lögmætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka