Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni

„Femínistar hafa gagnrýnt Silfur Egils frá upphafi fyrir að vera karlaþáttur og í karlastíl," segir Katrín Anna Guðmundsdóttir femínisti sem hafnaði boði Egils Helgasonar um að taka þátt í umræðum í þætti hans, Silfri Egils, síðastliðinn sunnudag í mótmælaskyni við stjórn og efnistök þáttarins. Samkvæmt heimildum 24 stunda höfnuðu fjórar aðrar konur boði hans um að koma í þáttinn.

„Egill hefur hingað til ekki haft fyrir því að hafa samband við femínista nema þegar umræðan snýst um klám og þess háttar málefni en það væri ærin ástæða til að tala um fleiri mál," segir Katrín.

Egill Helgason segir aðeins þrjár konur beinlínis hafa hafnað því að koma í þáttinn en nokkrar aðrar hafi ekki komist af öðrum ástæðum. Hann segist hlusta á alla gagnrýni sem hann fær á þáttinn en hann telji gagnrýni femínista ekki réttmæta. „Það var tuttugu mínútna umræða um jafnréttismál í þættinum á sunnudag sem fór fram á milli tveggja kvenna á meðan karlarnir sátu hjá og þögðu og kvörtuðu eiginlega yfir því eftir þáttinn að hafa ekki komist að."

mbl.is

Bloggað um fréttina