Lítið fannst af seiðum í Varmá

Frá rafveiðum í Varmá í kjölfar mengunarslyss.
Frá rafveiðum í Varmá í kjölfar mengunarslyss. Ragnar Axelsson

Fullorðinn urriði, um 40 sentímetra langur um eitt kíló, lifandi urriðaseiði og áll fundust í Varmá við athugun starfsmanna Veiðimálastofnunar í dag. Könnuðu þeir svæðið til móts við bæina Þúfu og Saurbæ og tæpa fimm kílómetra neðan við upptök klórmengunarinnar á föstudaginn var.

 „Það virðist sem þar séu veruleg þynningaráhrif á þessari klórmengun komin fram,“ sagði Magnús Jóhannsson fiskifræðingur. Hann rafveiddi Varmá ásamt Benoný Jónssyni líffræðingi.

Hann sagði að svolítið hafi fundist af seiðum, ekkert mikið, og eftir væri að meta hvort þéttleiki seiðanna gæti talist eðlilegur. Á þessum stað fundust einnig dauðir fiskar, tvær smáar flundrur og tveir 30-40 sm langir sjóbirtingar.

Flundra er flatfiskur sem gengur í Varmá, en er ekki talin ganga mjög langt upp eftir ánni.

Magnús og Benoný reyndu einnig að rafveiða neðar í ánni og fundu þar lítið af seiðum. Þau sem fundust voru aðallega í mynni lækjar sem rennur í ána og kunna þau að hafa lifað mengunina af í læknum.
mbl.is

Bloggað um fréttina