Alvarlegt ef börn rofna úr tengslum við þjóðararfinn

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, segir það alvarlegt ef börn landsins eru að rofna úr tengslum við þjóðararfinn, bókmenntir okkar og ljóð. Segir hann að stórefla eigi þátt kristinfræði í skólunum, jafnframt aukinni fræðslu í almennum trúarbragðafræðum. Þetta kom fram í nýárspredikun biskups í Dómkirkjunni í morgun.

„PISA könnunin sýnir fram á að lesskilningi sé ábótavant hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er alvarlegt ef börnin okkar rofna úr tengslum við þjóðararfinn, bókmenntir okkar og ljóð. Því skal ítreka hve háskasamt það er ef kynslóðir vaxa úr grasi skilningsvana og ólæsar á þann grundvallarþátt menningar og samfélags sem trúin er og siðurinn. Það er brýnt að stórefla þátt kristinfræði í skólunum, jafnframt aukinni fræðslu í almennum trúarbragðafræðum."

Biskup Íslands kom inn á nýja útgáfu Biblíunnar í predikun sinni. „Í jólapökkum margra um þessi jól var Biblían, hin nýja og fagra útgáfa bókarinnar helgu, Biblíu 21.aldar.

Hin nýja útgáfa hefur vakið umtal og gagnrýni. Er það vel, Biblían á það skilið, og allt orkar tvímælis þegar leitast er við að umorða fornhelga texta. Biblían þolir líka að hún sé brotin til mergjar, já, og sett undir smásjá vísindanna. Þeim er reyndar ætlað að efast um allt og leita svara út frá sínum forsendum.

Fræðimennska sem ekki er  gagnrýnin er gagnslaus, best er þó þegar hún er gagnrýnin á eigin árangur og forsendur. Raunvísindin eru mesta andlega afrek Vesturlanda, ásamt lýðræðinu. Boðskapur Biblíunnar, von og trú, guðsmynd, mannsskilningur og samfélagssýn, við birtu jólanna og ljóma páskanna og sólglit hvítasunnunnar, hann hefur verið sú deigla og áhrifahvati sem gerði þau afrek yfirhöfuð möguleg.

Biblían er lifandi orð á mannamáli í umhverfi mannlegrar reynslu og sögu. Mestu varðar að hlusta eftir röddinni sem býr að baki orðum og frásögnum Biblíunnar. Sú rödd er einatt lágmælt og mild í skarkala heimsins. Varnalaus eins og lítið barn.  

Biblían er eins og jatan, sem Jesúbarnið var lagt í. Við komum ekki þar að til að skrúfa jötuna sundur, skoða efniviðinn, samsetninguna, fóðurgildi töðunnar og hálmsins sem í jötunni er, -þótt það geti út af fyrir sig verið áhugavert- heldur til að sjá barnið og lúta því, barninu sem þar hvílir og brosir við okkur og biður okkur að gefa sér skjól. Þannig er Biblían," sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson. MorgunblaðiðSkapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina