Í reynslusölu í Reykjavík: Sunnlenski bjórinn ekki til á Suðurlandi

Sunnlenskir bjórunnendur fá ekki tækifæri til að kaupa sunnlenskan bjór, sem kemur á markað innan skamms, í sinni heimabyggð fyrr en bjórneytendur í Reykjavík hafa sýnt það í verki að bjórinn standist kröfur þeirra.

Sunnlensku bjórtegundirnar sem um ræðir eru tvær. Annars vegar er Skjálfti sem brugghúsið Ölvisholt í Flóahreppi mun setja á markað í lok mánaðarins og hins vegar er um að ræða Volcano-bjór frá Vestmannaeyjum. Stefnt er að því að sá bjór komi í búðir í sumar.

Furðulegar reglur

Reglur ÁTVR kveða á um að nýjar áfengistegundir á íslenskum markaði þurfa að fara í reynslusölu í tvo mánuði í Vínbúðinni í Kringlunni og Heiðrúnu, verslun ÁTVR á Stuðlahálsi.

„Þetta er nú bara ein af þeim furðulegu reglum hjá ÁTVR sem gilda varðandi verslun með áfengi,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Sigurður Kári lagði fram frumvarp til breytinga á áfengislögum sl. haust. „Þetta væri nú ekki vandamál ef búið væri að samþykkja frumvarp mitt um að heimila sölu á þessum vörum í búðum.“

Hann segist hafa fullan skilning á því að Sunnlendingar skuli vera svekktir yfir því að þurfa að bíða eftir því að Reykvíkingar samþykki bjór sem framleiddur er í þeirra sveit.

Markaðshömlur í kerfinu

„Þetta mál er lifandi dæmi um að einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis gerir það að verkum að það eru markaðshömlur í kerfinu sem gera nýjum framleiðendum erfitt fyrir að komast inn á markaðinn,“ segir Sigurður Kári.

Framleiðendurnir segjast fullvissir um að bjórtegundirnar komi á endanum í verslanir annars staðar á landinu. „Við höfum ekki áhyggjur, enda er þetta úrvalssælkerabjór sem við höfum lagt í allan okkar metnað,“ segir Bjarni Einarsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts. „Við byrjum í þessum tveimur búðum en gerum ráð fyrir að færa okkur svo út í aðrar verslanir.“

Í hnotskurn
Nýjar tegundir hjá ÁTVR þurfa til að byrja með að fara í tveggja mánaða reynslusölu í Kringlunni og Heiðrúnu. Í lok mánaðarins kemur Skjálfti frá Flóahreppi á markað, en í sumar er von á Volcano frá Vestmannaeyjum.
mbl.is

Bloggað um fréttina