HÍ og Caltech í nánara samstarf

Háskóli Íslands og California Institute of Technology (Caltech) Pasadena, California hafa undirritað samning um aukið samstarf í kennslu og rannsóknum.

Caltech er einn fremsti rannsóknaháskóli í heiminum og má geta að meðal starfsfólks skólans hafa verið 23 Nóbelsverðlaunahafar, samkvæmt tilkynningu frá HÍ.

Fyrsti þáttur í auknu samstarfi er þátttaka Háskóla Íslands í svokölluðu SURF (Summer Undergraduate Research Fellowship) hjá Caltech, en SURF gengur út á rannsóknasamstarf milli leiðbeinanda og nemenda í grunnnámi.

Sumarið 2008 verða þrír nemendur frá Háskóla Íslands styrktir til að vinna 10 vikna SURF verkefni við Caltech og allt að þrír grunnnemendur frá Caltech verða styrktir í tíu vikna verkefni við HÍ.

Íslensku nemendurnir sem fara utan í sumar eru Sara Sigurbjörnsdóttir, nemi í líffræði, Benjamín Sveinbjörnsson nemi í efnafræði og Arnar Björn Björnsson, nemi í umhverfis- og byggingaverkfræði.

Þau munu vinna að rannsóknarverkefnum í Caltech með afburðaleiðbeinendum, þar á meðal einum Nóbelsverðlaunahafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina