Thomas: Ísland í úrslit en Úkraína vinnur

„Ég er nokkuð viss um að Úkraína vinni þetta í ár,“ segir finnski Evróvisionsérfræðingurinn Thomas Lundin, sem er Íslendingum að góðu kunnur úr norrænu Evróvisionþáttunum sem reyndar voru ekki á dagskrá í ár.

„Það voru bara Svíþjóð og Finnland sem sáu um að gagnrýna lögin í ár. Og það gekk furðuvel, þættirnir slógu ekkert af hvað vinsældir varðar. En þetta er víst allt Noregi að kenna. Þeir ákváðu að vera ekki með í þáttunum og í kjölfarið fylgdu Ísland og Danmörk.

En, heyrðu, hvernig fengu Íslendingar þá að heyra lögin?“ spurði Thomas áhyggjufullur, en róaðist um leið og blaðamaður greindi honum frá því að Páll Óskar Hjálmtýsson hefði fyllt upp í skarðið. „Æ það var nú gott, hann er líka alveg fullkominn í það hlutverk.“

Spáir Íslandi upp úr riðlinum

„Í ár eru fleiri lög sem koma til greina sem sigurvegarar en undanfarin ár. Það verða Úkraína, Svíþjóð, Sviss, Armenía, Grikkland sem berjast um sigurinn, en mitt persónulega uppáhald er þó framlag Bosníu Hersegóvínu. Annars ræðst þetta svolítið af því að nú eru tvær riðlakeppnir, en sú seinni er mun sterkari en sú fyrri. Ég held að Ísland og Finnland njóti góðs af því, þó svo ég haldi meira með framlagi Íslands en Finnlands!

Ég fylgist aðeins með undankeppninni á Íslandi í gegnum youtube og hélt með þeim Friðriki Ómari og Regínu Ósk alveg frá byrjun. Það var sterkur leikur að snara laginu yfir á ensku, þó svo ég elski íslenska tungu. Lagið er bara kraftmeira og flottara.

Hræðist ekki hommahatara

„Ég fer utan til Serbíu á sunnudag og hlakka mikið til en þetta verður mín sjöunda keppni. Ég læt ekki fáfróða hommahatara hræða mig en er þó þeirrar skoðunar að samkynhneigt fólk sem fer til Serbíu vegna keppninnar þurfi ekki að ögra þessum þröngsýnu sálum með kossaflensi og slíku. Við verðum að fara varlega þó svo að við ættum ekki að þurfa þess,“ segir Thomas Lundin að lokum.
Í hnotskurn
Thomas hefur starfað lengi í fjölmiðlum, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Hann hefur verið þulur fyrir Evróvisionkeppnina síðan 2002. Hann hefur oft komið til Íslands, síðast árið 2006.
mbl.is