3 ára fangelsi fyrir nauðgun

Hótel Saga.
Hótel Saga. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag 19 ára gamlan karlmann í 3 ára  fangelsi fyrir að nauðga 19 ára gamalli stúlku á salerni Hótels Sögu í mars á síðasta ári. Héraðsdómur sýknaði manninn af ákærunni í júlí á síðasta ári en Hæstiréttur ómerkti dóminn og sendi málið aftur heim í hérað.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir króna í bætur og tæpar 2,8 milljónir í málskostað. 

Fjölskipaður héraðsdómur segir, að reisa beri niðurstöðu málsins á traustum framburði stúlkunnar en ekkert hafi komið fram í málinu, sem dragi úr trúverðugleika hennar. Talið sé sannað, að maðurinn hafi ýtt stúlkunni inn á salernisbás í kjallara Hótel Sögu og að hann hafi girt þar niður um hana sokkabuxur og nærbuxur. Því næst hafi hann með ofbeldi þröngvað henni til kynferðismaka.

Stúlkan staðhæfði að hún hefði frosið í upphafi atburðarásarinnar inni á salerninu og fundist eins og hlutirnir væru ekki að gerast og hún verið dofin. Síðar hafi hún rankað við sér og reynt að komast frá manninum en hann varnað henni för út af salernisbásnum. Loks hafi henni tekist að komast fram á ganginn. 

Dómurinn segir, að þetta athæfi mannsins sé metið sem ofbeldi í skilningi hegningarlga. Brot mannsins hafi verið ófyrirleitið og til þess fallið að valda stúlkunni verulegum skaða. Hann eigi sér engar málsbætur.

Dómurinn telur að Hæstiréttur hafi á liðnum misserum þyngt refsingar vegna kynferðisbrota almennt og er refsingin ákveðin með hliðsjón af því en einnig er tekið tillit til þess dráttar sem varð á meðferð málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina