Búist við fleirum á þjóðhátíð en í fyrra

mbl.is

Það hefur vakið athygli hve vel skipulögð þjóðhátíð í Eyjum er jafnan og öll umgjörðin um hátíðina glæsileg eftir því. Enda segir Friðbjörn Valtýsson, framkvæmdastjóri ÍBV, að ef eitthvað bjáti á sé varaáætlun alltaf til.

„Ef það eru einhver vandræði með veður þá höfum við meðal annars opnað alla íþróttasali fyrir gesti og við höfum stundum þurft á því að halda. Við höfum vitanlega mjög mikla reynslu af að taka á móti fólki og erum með alls konar áætlanir í gangi, ef eitthvað út af bregður. Gæslan hjá okkur er mjög öflug en hún samanstendur af 25 björgunarsveitarmönnum, sex lögregluþjónum og fimm sjúkraflutningamönnum. Svo má ekki gleyma sálgæslu- og læknateyminu okkar en þau eru á vakt alla þjóðhátíðina. Auk þess erum við með foreldravakt enda hugsum við vel um unglingana sem og aðra sem hingað koma. Við erum í mjög miklu samstarfi við lögregluna og það hefur gengið mjög vel undanfarin ár. Þeir eru með öfluga fíkniefnavakt og það má eiginlega segja að undanfarin ár hafi okkur nánast tekist að útiloka fíkniefnaneyslu hér. Það er eitthvað sem við leggjum mikla áherslu á og höfum gert undanfarin ár. “

Í dalnum má finna ýmsa þjónustu sem gestir þjóðhátíðar þurfa á að halda, svo sem sölubúðir, munageymslu sem opin er allan sólarhringinn, bekkjarbíla, kaffitjald og fleira. Friðbjörn segir bekkjarbílana órjúfanlegan hluta af þjóðhátíð og játar að þeir séu mikið notaðir á hátíðinni. „Þessir hefðbundnu bekkjarbílar eru svakalega vinsælir og eitt af séreinkennum þjóðhátíðar. Þetta eru vörubílar sem tjaldað er yfir og þeir flytja fólk úr og í dalinn. Það er alltaf mjög skemmtileg stemning í bekkjarbíl,“ segir Friðbjörn og bætir við að ásóknin í þjóðhátíð í ár sé mjög mikil. „Við búumst við miklum mannfjölda og heldur fleirum en komu hingað í fyrra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina