Árvakur fækkar störfum um 19 og lækkar laun stjórnenda

Árvakur segir í dag upp 26 starfsmönnum. Þar af er 19 uppsagnir vegna fækkunar starfa en 7 vegna breytinga á starfseminni þar sem gert er ráð fyrir einhverjum endurráðningum.

Hluti þessara uppsagna tengist því að félagið lagði niður útgáfu 24 stunda fyrr í mánuðinum og hluti er vegna harkalegs samdráttar á auglýsingamarkaði vegna efnahagskreppunnar. Auk fækkunar starfa verða laun stjórnenda hjá fyrirtækinu lækkuð.

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, sagði í dag að þessar breytingar væru vitaskuld afar mikið áfall fyrir þá sem færu frá fyrirtækinu við þessar kringumstæður. Þær eru líka sársaukafullar fyrir félagið og þá starfsmenn sem halda áfram.

„Hér starfar einstaklega samhentur hópur að mikilvægu verkefni. Nú í efnahagsþrengingum gegnir Morgunblaðið mjög mikilvægu hlutverki og það er augljóst að almenningur lítur á fréttaflutning þess sem ákveðna kjölfestu í upplýsingamiðlun. Áskrifendum fjölgar og í lestrarmælingu Gallup, sem gerð var fyrir Morgunblaðið nú í vikunni, kemur í ljós hérumbil þriðjungi fleiri lesa blaðið en fyrr í haust. Lestur blaðsins mælist nú um 52% á móti 38% í haust. Þetta sýnir einstaka stöðu Morgunblaðsins sem áskriftarblaðs. Sama máli gegnir um mbl.is. Þetta er fréttavefur sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra og vikulega tengjast nú 360 – 380 þúsund tölvur sig við mbl.is að jafnaði 9 sinnum hver. Það er því einstaklega mikilvægt að tryggja rekstur Árvakurs til framtíðar."

mbl.is

Bloggað um fréttina