Í nógu að snúast í Grundarfjarðarhöfn

Netagerðarmenn að störfum í Grundarfirði í dag.
Netagerðarmenn að störfum í Grundarfirði í dag. mbl.is/Gunnar

Það hefur verið í nógu að snúast hjá hafnarverðinum í Grundarfjarðarhöfn sl. sólarhring. Vilhelm Þorsteinsson EA kom inn með rifna síldarnót í gærkvöldi og kastaði á land til viðgerðar. Þá var togbáturinn Berglín dreginn að landi í gærkvöldi með trollið í skrúfunni og kafarar unnu við að skera það úr langt fram á nótt.

Nú síðdegis kom Júpiter ÞH úr síldveiðinni inn við Stykkishólm og hafði fengið hluta af bláskeljaeldi þeirra Hólmara í hliðarskrúfuna, að sögn Hafsteins Garðarssonar, hafnarvarðar.

Fram á haus Stóru–Bryggju, eða Norðurgarðs eins og formlegt nafn hafnargarðsins er, voru netagerðarmenn frá Netaverkstæði Guðmundar Runólfssonar ásamt sérstökum aðstoðarmönnum úr Ólafsvík í óðaönn við að stoppa í 200 faðma rifu á nót Vilhelms. Höfðu þeir að orði að síldveiðarnar inni við Stykkishólm væru meira atvinnuskapandi en þær sem voru á Grundarfirði sl. haust því nú fengju þeir vinnu við að bæta þegar rifnaði en það hefði ekki ekki gerst þá.

Kafari býr sig undir að kafa í Grundarfjarðarhöfn í dag.
Kafari býr sig undir að kafa í Grundarfjarðarhöfn í dag. mbl.is/Gunnar
mbl.is

Bloggað um fréttina