Rúmar 700 milljónir vegna jarðskjálfta í vor

mbl.is/Kristinn

Ótryggð tjón einstaklinga og fyrirtækja af völdum jarðskjálftans á Suðurlandi 29. maí síðastliðinn nema 437 milljónum króna. Ríkissjóður mun bæta þetta tjón samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga.

Í frumvarpinu er sótt um 733 milljóna króna fjárveitingu vegna jarðskjálftans á Suðurlandi.

Nú liggur fyrir að mestu kostnaður vegna viðbragða, úrvinnslu og tjóns sem hvorki viðlagatrygging né aðrar tryggingar bæta. ÞAr af er kostnaður við fyrstu viðbrögð og rekstur þjónustumiðstöðvar um 65 milljónir króna. Kostnaður sveitarfélaga, annar en við fyrstu viðbrögð, er áætlaður 135 milljónir króna.

Stærsti kostnaðarliðurinn er vegna ótryggðra tjóna einstaklinga og fyrirtækja sem er áætlaður um 437 milljónir. Undir þann lið falla öll þau verkefni sem borist hafa til þjónustumiðstöðvar og gerðar hafa verið tillögur um úrlausn.

Auk þess er gert ráð fyrir að ekki hafi öll kurl komið til grafar þannig að nauðsynlegt þykir að gera ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði að fjárhæð allt að 100 milljónir króna, bæði vegna uppgjörs tjóna á árinu 2009 sem og kostnaði vegna mats og starfa þess vegna.

mbl.is

Bloggað um fréttina