Mikilvægt að stjórnin fái vinnufrið

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi að mikilvægt væri að ríkisstjórnin fengi vinnufrið, m.a. til að tryggja að ekki þurfi að nota öll þau lán, sem samið hafi verið um við Alþjóðagjaldeyrissjóðínn og vinveittar þjóðir.

Stjórnarandstaðan gerði harða hríð að ríkisstjórninni við upphaf þingfundar og Ögmundur Jónasson spurði m.a. hvenær ætti að kjósa nýtt þing með raunverulegt umboð. Sagði hann að ríkisstjórnin hefði sýnt sig vanhæfa til að gæta hagsmuna þjóðarinnar og ætti að fara frá.

Geir sagðist hafna því, að ríkisstjórnin væri í leynimakki varðandi samninga við erlend lönd vegna Icesave reikninganna, eins og ögmundur sagði, vegna þess að hún hefði á bakvið sig ályktun Alþingis í því efni.

Ögmundur kallaði ítrekað fram í þegar Geir talaði og sagði að ríkisstjórnin væri umboðslaus. Geir sagði, að þingmaðurinn gargaði eins og hann væri staddur á útifundi.

Geir sagði einnig, að ríkisstjórnin hefði meirihluta þingsins á bakvið sig. Þingið sagði sína skoðun. Stjórnin er önnum kafin til að greiða úr fjölda mála.

Sagðist Geir hafa haldið, að þingmenn hefðu það sameiginlega markmið að draga úr þörfinni fyrir þær lántökur sem íslensk stjórnvöld hefðu samið um. Spurði hann hvort Ögmundur hefði ekki fylgst með því sem sé að gerast í nálægum löndum.

mbl.is