78% allra ferðamanna á Húsavík í hvalaskoðun

Húsavík
Húsavík mbl.is/Rax

Áætla má að tekjur vegna sölu á farmiðum í hvalaskoðun á Húsavík árið 2007 hafi numið um 129 milljónum kr. sé miðað við 41 þúsund gesti í hvalaskoðun. Útgjöld ferðamanna sem fóru í hvalaskoðun voru að jafnaði rúmar 13 þúsund krónur á dag, en marktækur munur var á útgjöldum ferðamanna eftir því hvort þeir fóru í hvalaskoðun eða ekki. Afþreying er stærsti útgjaldaliður ferðmanna á Húsavík. Áætluð heildarvelta vegna hvalaskoðunarferðamanna er því tæpar 650 milljónir árið 2008.

Þetta er meðal þess sem lesa má í skýrslu sem Rannveig Guðmundsdóttir og Andri Valur Ívarsson unnu sumarið 2008 hjá Þekkingarsetri Þingeyinga og styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Alls fengust 520 svör úr könnun sem lögð var fyrir ferðamenn. Markmið rannsóknarinnar var að leggja mat á mikilvægi ferðaþjónustu fyrir Húsavík, með áherslu á hvalaskoðun og reikna út óbein margfeldisáhrif. Í svörum ferðamanna kemur fram að 78% allra ferðamanna á Húsavík fóru í hvalaskoðun, en það samsvarar 40% allra þeirra ferðamanna sem fóru í hvalaskoðun við Ísland árið 2007.

Eins og sjá má í meðfylgjandi gröfum sögðu 85% ferðamanna að hvalaskoðun hefði haft mjög mikil eða mikil áhrif á komu þeirra til bæjarins. Jafnframt voru gestir sem fóru í hvalaskoðun beðnir að tilgreina hvenær sú ákvörðun hefði verið tekin að fara í hvalaskoðun frá Húsavík.

Alls sögðust 63% gesta hafa ákveðið að fara í hvalaskoðun frá Húsavík áður en komið var til landsins, en 26% ákváðu það á ferð sinni um Ísland. Í flestum tilvikum eru það ferðamenn frá Mið-Evrópu, Suður-Evrópu og Bretlandseyjum sem skipulagt hafa hvalaskoðun frá Húsavík áður en ferðast er til landsins, en fólk frá þessum löndum er jafnframt fjölmennasti hópur hvalaskoðunargesta á Húsavík.

Fram kemur í skýrslunni að alls voru um 47 stöðugildi hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum og Hvalasafninu yfir ferðamannatímann 2007 eða ígildi tæplega 20 starfa á ársgrundvelli. Því til viðbótar voru 11 manns í fullu starfi allt árið um kring og heildarstarfsígildi á ársgrundvelli því 31 starf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert