16.685 skráðir á atvinnuleysisskrá

Yfir tvö þúsund þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá koma úr …
Yfir tvö þúsund þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá koma úr verslun mbl.is/Kristinn

Alls eru 16.685 einstaklingar skráðir á atvinnuleysisskrá á landinu öllu, 10.640 karlar og 6.045 konur. Hafa verður í huga að sá hópur sem ekki er að fullu atvinnulaus fer stækkandi, þ.e. þeir sem eru á hlutabótum á móti hlutastarfi. Um þessar mundir er fjöldi þeirra sem eru á hlutabótum á móti hlutastarfi á milli 2.000 og 2.500, samkvæmt vef Vinnumálastofnunar.

Búast má við að um 20 þúsund manns verði án atvinnu á næsta ársfjórðungi

Stór hluti tilkynntra fjöldauppsagna er nú kominn til framkvæmda og því sennilegt að á næstunni hægi nokkuð á fjölgun atvinnulausra. Þó er viðbúið að fjölgun atvinnulausra aukist aftur í maí og júní þegar skólafólk streymir út á vinnumarkaðinn, að því er fram kemur á vef ASÍ.

„Fjöldi atvinnulausra mun líklega nái hámarki á öðrum ársfjórðungi í ár en þá gætu hátt í 20 þúsund manns verið að fullu án vinnu sem svarar til um 10% atvinnuleysis. Ástandið mun batna yfir sumarmánuðina þegar fullur kraftur verður settur í ýmiss konar verkefni sem á annað borð eru á dagskrá. Hætt er við að með vetrinum fari atvinnulausum aftur að fjölga og gætu þeir jafnvel orðið enn fleiri fyrri hluta næsta árs en í ár."

Miðað við tölur um skráð atvinnuleysi frá lokum janúar koma flestir atvinnulausra úr mannvirkjagerð (2.569 manns), þá úr verslun (2.082), ýmiss konar sérhæfðri þjónustu (1.518), iðnaði (1.405) og flutningastarfsemi (869). Tæplega 2/3 hlutar atvinnulausra voru af höfuðborgarsvæðinu og 2/3 hlutar voru karlar. Fjöldi atvinnulausra er mestur í aldurflokknum 20-24 ára en síðan fækkar í þeim jafnt og þétt með aldri. Alls voru 1.655 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok janúar eða um 13% allra atvinnulausra. Þetta hlutfall hefur lækkað mjög hratt síðustu vikur eftir að það náði hámarki um áramótin í um 25%, samkvæmt vef ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert