ESB gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga

Verið er að undirbúa hvalveiðar við Íslandsstrendur í sumar.
Verið er að undirbúa hvalveiðar við Íslandsstrendur í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segist vonast til, að hægt verði að finna lausn á hvalveiðum Íslendinga en þær veiðar grafi undan því markmiði, að viðhalda og vernda hvalastofna. Harmar framkvæmdastjórnin að Ísland hafi gefið út kvóta vegna veiða á langreyði og hrefnu í ár.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Stavros Dimas, sem fer með umhverfismál í framkvæmdastjórn ESB, við fyrirspurn þingmannsins Roberts Kilroy á Evrópuþinginu, og einnig í bréfi, sem Dimas hefur sent Alþjóðadýraverndarsjóðnum, IFAW.

Í svari við fyrirspurn þingmannsins segir Dimas, að framkvæmdastjórnin hafi miklar áhyggjur af hvalveiðum, sem Íslendingar stundi vegna fyrirvara við hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Þá segir Dimas, að í viðræðum um framtíð hvalveiðiráðsins vilji framkvæmdastjórnin tryggja, að í slíku samkomulagi séu tryggðar verulegar umbætur varðandi friðun hvalastofna og að allar veiðar séu undir stjórn Alþjóðahvalveiðiráðsins. Framkvæmdastjórnin muni skiptast á skoðunum við Ísland og voni að Evrópusambandið ásamt öðrum aðildarríkjum ráðsins, finni lausn á hvalveiðum Íslendinga.

Í bréfinu til  IFAW segir Dimas, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni nota hvert tækifæri sem gefst til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við Íslendinga á tvíhliða fundum og muni einnig ráðfæra sig við aðildarríkin um hvaða leiðir séu færar til að taka á hvalveiðum Íslendinga. Þar á meðal komi til greina að gefa út formlega yfirlýsingu.

mbl.is