Börðust við að halda bátnum á réttum kili

Ármann ÞH lenti uppi í fjöru og laskaðist talsvert.
Ármann ÞH lenti uppi í fjöru og laskaðist talsvert. Hafþór Hreiðarsson

Tveir grásleppubátar frá Kópaskeri lentu í vandræðum í morgun. Annar, Fróði ÞH, fékk netin í skrúfuna en komst til hafnar af sjálfsdáðum. Hinn, Ármann ÞH, lenti uppi í fjöru í Núpavík. Allir sjómennirnir sluppu heilir á húfi.

Grásleppubáturinn Ármann ÞH frá Kópaskeri lenti uppi í fjöru í Núpavík um kl. 10.30 í morgun. Áhöfnin, tveir piltar 17 og 19 ára, slapp heil á húfi en báturinn er talsvert skemmdur. Nokkru fyrr um morguninn fékk Fróði ÞH netin í skrúfuna við Rauðanúp. Áhöfninni tókst að komast til hafnar af sjálfsdáðum.

Eyþór Margeirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Núpa á Kópaskeri, sagði að piltarnir á Ármanni ÞH hafi ætlað að taka land í Núpavík. Þeir misstu bátinn þvert fyrir í fjörunni en bæði var talsverð kvika og áttin stóð á landið. „Þá gekk bara brimið yfir hann,“ sagði Eyþór. 

Piltarnir börðust við að halda bátnum á réttum kili en sjórinn gekk yfir þá og bátinn. Þeir jusu líka bátinn og vörnuðu því að honum hvolfdi. Menn frá Kópaskeri fóru á vettvang með lítinn árabát og tókst að róa á honum með dráttartaug út í stærri bát. Sá dró svo Ármann ÞH á flot. 

Ármann ÞH er gamall súðbyrtur trébátur. Hann mun hafa laskast talsvert í fjörunni og m.a. kjölbrotnað. Piltarnir voru blautir og slæptir eftir volkið.

Nokkru fyrr í morgun en Ármann ÞH lenti upp í fjöru barst hjálparbeiðni vegna grásleppubátsins Fróða ÞH. Á Fróða ÞH er þriggja manna áhöfn.

Þeir voru að draga netin við Rauðanúp, skammt frá landi, þegar þeir fengu net í skrúfuna. Þeim tókst að losa svo um flækjuna að báturinn komst fyrir eigin vélarafli frá landi og til hafnar á hægri ferð. Hjálparbeiðni var send út og björgunarsveitin að tygja sig til farar þegar Vaktstöð siglinga afturkallaði hjálparbeiðnina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert